Ástandið í Grenlæk er grátlegt og orð forstjóra Umhverfisstofnunnar í Sporðaköstum gefa ekki von um að það sjái til sólar, þar kemur fram að margir aðilar þurfi að koma að borðinu til að finna lausn. Þessu eru ekki allir sammála, enda hefur vandamálið verið til staðar til fjölda ára og ekki bólar á neinu sem líkist lausn. Þvert á móti.
Í fyrrreindum tilvitnunum í Umhverfisstofnun má sjá klassískt dæmi um að hver vísar á annan sem er ávísun á að engin lausn finnist. Gunnar Óskarsson formaður SVFK segir málið hins vegar afar einfalt. „Einn mann á gröfu, punktur. Þetta eru ekki geimvísindi og það þarf enga fimmtíu manns að borðinu. Vegagerðin reisti garðinn, að þeirra sögn til að hlífa Þjóðvegi 1. En þarna er pólitíkin að spila sitt spil, hver ætlar að taka að sér að stíga á tærnar á Vegagerðinni? Eina sem þarf er mann á gröfu til að hleypa nægu vatni, til að bjarga málunum. Það er bara út í bláinn að þetta sé eitthvert flókið úrvinnsluverkefni sem margir þurfi að koma að. Þvert á móti er óskiljanlegt að það skuli ekki allir vera sammála um að grípa til aðgerða og það strax. Þetta er svo sorglegt, þetta gerðist 2016 og einhvern tíman áður líka, síðan 2021 og þá voru allir með stór orð um að grípa til ráðstafanna. Fyrri skiptin sem þetta gerðist var vel liðið á vorið og mikið af hrygningarfiskinum farinn út. Skaðinn samt gríðarlegur á hrognum, seiðum og almennu botndýralífi. Það getur tekið alveg 2,3 og upp í 4 ár að skaðinn sýni sig. Jafnvel lengur. Og í þetta skipti er allur fiskurinn enn í ánni og þá er að bætast við tjón sem telur 3-4 hrygningarárganga. Þetta er allt stórfiskur sem að drepast þarna,“ segir Gunnar.
Neðsta svæði Grenlækjar er Flóðið, en að sögn Gunnar verður það ekki jafn illa fyrir barðinu á vatnsleysinu þar sem Jónskvísl og Sýrlækur skila drjúgu vatni, en þær ár verða ekki fyrir vatnsleysinu sem herjar á Grenlæk. „Það eru allir meðvitaðir um að það þurfi að fara vel með þann fisk sem er í Flóðinu á vorin, oft hefur þar verið gríðarlegt magn af geldfiski, en honum hefur fækkað hin seinni ár og má án vafa rekja það til þessara vatnsleysishamfara. Veiðin er að byrja þarna núna og sjálfir eigum við SVFK menn helgina. Þarna verður í fyrsta skipti aðeins veitt á flugu og öllum fiski sleppt. Fram að því hafa gilt þröngir kvótar,“ bætti Gunnar við.