Jæja loksins komið vor í veðurkortunum og við bregðumst við því með því að vakna af dvalanum. Þurftum að loka um tíma vegna annarra verkefna, en ætlum nú að gera okkar besta með frískan fréttaflutning.
Það þarf engum að segja að fyrstu vikur apríl voru erfiðar, vetrartíð og aðstæður eftir því. En þetta er ekkert nýtt, fyrir einhverjum árum síðan þurftu stjórnarmenn SVFK, sem þá voru með Geirlandsá að hefja veiðivertíðina með sleggjum og öðrum þungavigtartólum til að losa um ísinn sem lokaði nánast gersamlega Ármótunum, albesta vorveiðistaðnum. Með elju og krafti tókst að koma hreyfingu á jakahrönnina og eftir nokkrar stundir fóru þeir að veiða vel. Mögn er mynd fyrir nokkrum árum af Valgarð Ragnarssyni að vaða um í Tungufljóti í opnun, umkringdur klakahröngli og jökum. Eitt vorið fraus meira að segja Tungulækur með sitt lindáreinkenni. Afar fátítt á þeim bænum.
En það er dálítill her manna sem lætur slíkt ekki stöðva sig, fer á veiðar hvað sem tautar og raular og það sem meira er, menn kunna fagið að veiða í vetrarkulda snemma á vorin. Nánast allar helstu sjóbirtingsárnar hafa verið að gefa og munu eflaust taka enn betur við sér nú þegar lýnað hefur hressilega. Harðir fylgismenn hafa fylgst með á FB síðum veiðigarpa og hjá Eggerti á Sporðaköstum. Engu við að bæta sem liðið, en gaman þó að sjá að eins og síðustu árin eru mjög stórir fiskar algengir í aflanum, sem er bein afleiðing af því nær alls staðar er sjóbirtingi sleppt. Þeir verða miklu eldri en laxinn og hrygna mun oftar, þannig að sleppa birtingi getur ekki annað en aukið gæðin og fjölgað stórum fiskum. Enda er það orðið svo að erlendir veiðimenn flykkjast í þessa veiði, sem hefur rokið upp í verði, líkt og laxveiðin gerði á sínum tíma.
Gaman að segja frá því líka að þar sem veiði á staðbundnum silungi hófst 1.apríl, hafa einnig borist fregnir af góðri veiði. Góð veiði þarf ekki að vera annað en 1, 2 eða 3 fiskar. Helst að gefið hefur þar sem urriðin er gildandi, en hann fer að taka fyrr á vorin en bleikjan. Nefna má Hólaá sem fínasta dæmi. Einnig hafa borist fregnir af afla úr Brúará og víðar. Vötnin eru og að taka við sér, sbr mynd sem hér fylgir og sýnir silungsveiðihvíslarann Ásgeir Ólafsson með gríðarlega fallega veiði úr Helluvatni. En uppúr miðjum mánuðinum fór loks að hlýna og framvegis verða þetta mest vonandi góðar fréttir og jákvæðar.