Jökla fær nú loks almennilegt sumar

Hér er Jökla á góðum degi, óvíða gefur að líta fallegri laxveiðiá. Myndina á Nils Folmer Jörgensen.

Eftir langan óheppniskafla stefnir í heppnissumar hjá Þresti Elliðasyni leigutaka og umsjónarmanns Jöklu. Hvað eftir annað hefur yfirfall komið svo snemma að stór hluti góðs veiðitíma hefur farið fyrir lítið. En nú stefnir í annað.

„Stefnir í ekkert yfirfall í Jöklu í ágúst!“, segir Þröstur Elliðason og vitnar í stöðu Hálslóns. Nýlega var staðan þar sú, að mestar líkur væru á að ekkert yfirfall kæmi í ágúst og líklega ekki fyrr en í september. „Það er óhætt að segja að það lítur vel út með stöðuna í Hálslóni. Venjulega er von á yfirfalli um miðjan eða síðla ágúst en miðað við stöðuna núna eru veiðimenn öruggir með tæra Jöklu út ágúst!
Þetta eru magnaðar fréttir því Jökla er ein af fáum laxveiðiám landsins þar sem sjá hefur mátt vöxt í laxastofninum. Merkilegt að skjóta því með, að aðrar ár sem virðast í fínu standi eru einmitt í næsta nágrenni, t.d. Selá og Hofsá.