Enn eru regnbogar í Minnivallalæk

Ómar heitir þessi kappi og má aldeilis dást að 70 cm regnboganum sem hann fékk í Minnivallalæk fyr í vor. En enn er spurn, hvaða koma þessir gestir?

Minnivallalækur getur verið erfiður á vorin ef árferði er óhagstætt, t.d. ríkjandi norðanátt með kulda. Þá dugar stundum ekki einu sinni að það mæti hörkutól sem gefa kuldanum puttann. En það komu dagar og nýlega fór að glæðast með hlýnandi veðri. Athygli hefur þó vakið að enn hafa verið að veiðast stórir regnbogar í ánni.

Þetta vakti fyrst athygli í fyrra, þá veiddist nokkur slatti af þessum fiskum. Þeir voru stórir og stæltir og fátt við vaxtarlagið benti til fiska úr eldi. Þeir voru t.d. með fína ugga. Eðlilega veltu menn því fyrir sér og gera enn, hvaðan þeir komu, því ekki fyrirfannst neitt regnbogaeldi í nágrenninu og fátt benti til að þeir hefðu gengið úr sjó að vori. Og hvergi vitanlega veiddust slíkir fiskar annars staðar. Þetta var sem sagt ráaðgáta. Og er enn, því enn hafa þeir sýnt sig, tveir t.d. í opnun. Annar heilir 70 cm.  Þeir hfa ekki verið eins margir í vor og gæti það bent til að þeir séu eftirhreytur af því sem fannst í ánni í fyrra. En hvað kemur í ljós, kemur bara í ljós.

Að öðru leyti má um Minni segja að menn hafa verið að tína þar upp nokkra af þessum stóru urriðum, 60 til 75 cm, sem áin er fræg fyrir.