Árið er: 1988 – Flökkulaxar

Falleg mynd tekin neðan við Kistukvísl í Laxá í Aðaldal. Myndin er fengin hjá Matthíasi Þór Hákonarsyni veiðileyfasala á Akureyri.

Mánuðirnir  janúar til mars eru ekki heitustu fréttamánuðirnir á veiðivefsíðum. Frá 1.apríl kveður svo við annan tón. En þangað til ætlum við að rifja upp fortíðina dálítið.

Árið 1988 kom út fyrsta Stangaveiðiárbókin. Hún var samvinnuverkefni ritstjóra VoV og Gunnars Bendar ritstjóra Sportveiðiblaðsins með meiru. Saman unnunm við þessa bók í all nokkur ár, en svo skyldu leiðir og áfram hélt ritstjóri þessari útgáfu áfram þar til fyrir fáum árum, að árbókin hætti að koma út, af ástæðum sem ekki verða tíundaðar. Það var afskaplega leitt og þarna lauk ákveðnum kafla í sögu útgáfu veiðiefnis hér á landi.

En við höfum verið að rýna á árbækurnar síðustu vikurnar og þykir ástæða til að rifja upp eitt og annað sem þar hefur verið að finna. Þó ekki væri annað en margar kostulegar veiðisögur. En þarna eftur í árin er að finna fréttir sem sumar hverjar ríma við nútíðina, aðrar vitna um breytta tíma og viðhorf.

Það er af nógu að taka og við ætlum að ýta úr vör með frásögn, sem hljómar því miður kunnuglega og sýnir að aðskotalaxar eru ekkert nýnæmi í íslenskum laxveiðiám, sem birtist í fyrstu Árbókinni 1988:

-Rétt er í þessum veiðifréttaannál að fjalla aðeins um hina svokölluðu flökkulaxa, en þeir settu sterkan svip á veiðina 1988. Enginn veit hversu mikið magn þetta var í raun og veru og enginn veit með neinni vissu hvaða skaði kann að verða af .essum löxum vegna hugsanlegrar þátttöku þeirra í hrygningu og þá fyrirsjáanlegri stofnablöndun.

Í Elliðaánum var var talsvert af þessum laxi, Jakob Hafstein fiskifræðingur sagði, þegar dregið hafði verið á um haustið, að sér sýndist allt að tíu prósent eða meira af þeim laxi sem náðist hafi verið af eldisuppruna. Þetta kemur fram í umfjöllun um veiðisumarið 1988, það myndi þýða að um 200 laxar sem voru stangarveiddir í Elliðaánum væru af þessum vafasama uppruna. Þá var mikið af „stubbunum“ í Elliðaánum, innanpundstittunum. Þessir laxar voru á ferðinni í Korpu og Leirvogsá og sennilega eitthvað í Laxá í Kjós og ef til vill víðar.

Svona laxar veiddust grimmt í netin í Hvítá um skeið og það á við í öllum tilvikum, að þessir laxar veiddust neðarlega eða beinlínis neðst í ánum.

Sigurður Már fiskifræðingur hjá Veiðimálastofnun athugaði marga af þessum löxum sem komu í Hvítárnetin. Í fljótu bragði var að sjá að þetta væru hreinir eldislaxar. Þeir voru með snubbóttan haus, og í flestu líkir eldislöxum.

Sigurður Már sagði í samtali við Morgunblaðið 26.júní, að miðað við að 60.000 seiði hefðu soppið árið áður úr kví í Hvalfirði og að nokkur tonn af laxi hafi sloppið úr stöð í Vogunum, væri ekki annars að vænta en að eitthvað af því magni öllu skilaði sér eitthvað. Hann sagði jafnframt að svona þekktist hér á landi, lax úr hafbeit hefði gengið í og veiðst í Blöndu. Seinna sagði Sigurður í samtali við Morgunblaðið að það væri sín skoðun eftir athuganir að laxarnir umræddu væru komnir úr hafbeit.

Hegðan flökkulaxanna í Hvítá var sérkennileg. Fiskarnir kíktu upp í ána, hafa e.t.v. elt villta laxa, en svo vissu þeir ekkert hvað þeir ættu af sér að gera, hringsóluðu og veiddust í netin bæði að ofanverðu og neðanverðu. Þessir laxar sáust ekki í bergvatnsánum í Borgarfirði.

Það hefði þurft að athuga það hvort að eitthvað af hinni miklu veiði á neðsta svæðinu í Laxá í Kjós hafi verið fiskur af skyldum uppruna. Það var alltaf nóg af nýrunnum laxi fyrir neðan Laxfoss, alveg fram í september, en það var ekki að sjá að það bættist í torfurnar fyrir ofan Laxfoss í sömu hlutföllum. E.t.v. vegna þess að það veiddist svo mikið fyrir neðan.

Flökkulaxarnir voru nær eingöngu bundnir við Faxaflóann, enda eru eldis- og hafbeitarstöðvarnar flestar að því svæði og næsta nágrenni. Þó sáust stöku fiskar í öðrum landshlutum, þannið sagði Garðar H vavarsson  frá tveimur löxum sem hann veiddi í Laxá á Ásum snemma í júní. Þeir höfðu ekki lengd nema á við 3 punda lax, en vógu samt 5 pund hvor. Þeir voru með pönnunef og tjásulega ugga og sporð. En þeir voru lostæti að borða, sagði Garðar.

Menn óttast stofnablöndun og erfðarmengun, en ekkert er víst að menn þurfi mikið að óttast, því margt bendir til þess að þessir laxar hafi ekki gengið í neinu magni sem heitið getur fram árnar, sbr í Borgarfirðinum. Á móti segja menn að það þurfi svo fáa fiska í hrygninguna til að byrja úrkynjunina að hættan sé sannarlega alvarleg.

Menn karpa mikið um þetta og skiptast á skoðunum. Þegar einn er búinn að segja eitthvað þrungið svartsýni bætir annar við að hvernig í ósköpunum geti staðið á því að enn gangi lax í íslenskar ár ef svona mikil hætta stafar af stofnablöndun, eftir að flestir íslenskir laxastofnar eru orðnir meira og minna blandaðir eftir endalausar seiðasleppingar hér á árum áður. Þá var sko stofnablandað, seiði og klakfiskur fluttur í stórum stíl á milli landshluta. Þá voru menn ekki með mönnum ef þeir settu ekki verár- eða Laxárstofn í árnar sínar. Og vítt og breytt fór Elliðaárstofninn. Það vita allir að stofnarnir blönduðust hressilega og breyttust. En það er alls staðar fullt af laxi fyrir það. Svo það eru nú greinilega tvær hliðar á þessu máli.

En þessi mál eru öll til athugunar og á meðan er auðvitað sjálfsagt að fara að öllu með gát og storka ekki lífríkinu því hver veit Já, hver veit?“

Þannig var nú umræðan eftir stórveiðisumarið 1988 þegar eldis- og hafbeitarlaxar voru afar áberandi í laxveiðiám víða á vestanverðu landinu. Einhverjum árum seinna átti skaðinn eftir að koma betur í ljós, enda voru þetta engan vegin síðustu slysasleppingarnir, aldeilis ekki, þetta var bara rétt að byrja. Og hvað varðar flutning á villtum stofnum á millli áa, þá vissu menn ekki betur en vissu svo og þessu var hætt. Ekki verður það sama sagt um sjókvíaeldið.