Það er haustbragur í vikuveiðitölum angling.is og ekki að furða, enda komið haust. Sumar ár sem voru skrapandi botninn stóran hluta sumars tóku nokkuð við sér er vætan skilaði sér loks, aðrar minna. Það er fyrir nokkru komin mynd á sumarið 2023, það er slakt sumar á heildina litið og margar ár annað hvort langt frá miðlungstölu sinni frá 2022 eða að klóra sig nálægt þeirri tölunni. Fjórar ár og eitt svæði hafa þó skilað meiri veiði en allt síðasta tímabil.
Sjö ár hafa náð hinni eftirsóttu fjögurra stafa tölu og hundrað prósent ljóst að þær verða ekki fleiri. „The big seven“ eru þetta árið Ytri Rangá, Eystri Rangá, Þverá/Kjarrá, Selá, Miðfjarðará, Norðurá og Hofsá. Selá er sú eina þeirra sem farið hefur yfir sína annars ágætu tölu sína frá 2022. Hinar sex eru ansi langt frá hinu sama, en þó gott að státa af fjögurra stafa tölu á þessum síðustu og verstu. Aðeins fjórar af þessum sjö náðu þriggja stafa vikutölu, en þetta má allt skoða í töflunni hér að neðan.
Að venju stillum við þessu þannig upp að fyrsta tala er heildartalan miðað viðkvöldið 13.9, þ.e.a.s gærkvöldið. Næsta talan er vikutalan og sú síðasta er heildartalan frá 2022, svona til samanburðar.
Ytri Rangá og Hólsá V 2970 – 399 (5086)
Eystri Rangá 1966 – 92 (3807)
Þverá/Kjarrá 1287 – 118 (1448)
Selá í Vopn. 1234 – 96 (1164)
Miðfjarðará 1199 – 110 (1522)
Norðurá 1067 – 106 (1352)
Hofsá í Vopn. 1009 – 50 (1211)
Haffjarðará 905 (lokatala) (870)
Laxá í Aðaldal 632 – 37 (402)
Laxá á Ásum 630 – 33 (820)
Elliðaár 614 – 46 (798)
Víðidalsá 599 – 70 (810)
Langá Á Mýrum 593 – 65 (1077)
Grímsá 564 – 72 (827)
Jökla 456 – 6 (803)
Laxá í Dölum 436 – 46 (761)
Neðar í listann förum við ekki að sinni, en eins og sjá má af listanum að ofan eru þrjár ár betri en allt síðasta sumar, Selá, Haffjarðará og Laxá í Aðaldal. Neðar í listanum heldur en fórum eru síðan austurbakki Hólsár með 416 laxa, allt síðasta sumar 403. Sú tala gæti hækkað því veitt er vel fram í næsta mánuð. Ekki má þó búast við risaaukningu því göngur eru að mestu afstaðnar. Og þá ber að geta Fnjóskár sem er komin með 305 laxa en var með alls 257 í fyrra. Allt svona er af hinu góða og þó að t.d. Hofsá sé ekki að toppa sig frá í fyrra verður að telja frammistöðuna góða á heildina litið. Og Laxá í Aðaldal? 632 laxar eru að vísu óralangt frá þeim afla sem þessi á gaf að jafnaði á sínum blómaárum, en samt sem áður 230 löxum meira en í fyrra þar sem botninum eftir nokkrra ára niðursveiflu var náð með aðeins 402 laxa heildarveiði. Þetta er kannski toppurinn af frekar fáum ljósum punktum.