„Því miður blasti við okkur hörmungarástand“

Þrír í beit á sömu breiðunni og fleiri bættust við.

Hrollvekjur þar sem 6-7 kg eldislaxar og hnúðlaxar leika aðalhlutverkin berast nú hvaðanæva að og og erfitt að ætla annað en að eldislaxarnir eigi rætur að rekja til slysasleppinga í Patreksfirði á dögunum. Þessir laxar sem nú veiðast og sjást út um allt eru nefnilega af þeirri stærð sem þar sluppu. Og þeir eru út um allt, ekki bara í næsta nágrenni sleppistaðarins.

Lýsnar í röðum og sumir laxanna voru verr haldnir en þessi. Sömu sögu er að segja víðar að þar sem þessi dýr hafa veiðst.
Elías Pétur Viðfjörð Þórarinsson lagði okkur til nýjustu hrollvekjuna, en hann var um síðustu helgi í veiðitúr á Vestfjörðum við þriðja mann. Hann skrifar:  „Því miður blasti þar við okkur hörmungarástand. Eldislax og hnúðlax út um allt. Við höfðum heyrt af slysasleppingu hjá Arctic Fish þar sem að fiskar um 80cm (6-7kg) höfðu líklega sloppið út.
Við veiddum 6 eldislaxa á örskömmum tíma, sem voru allir af þessari stærð. Þessir fiskar voru særðir, lilla lúsaétnir og allir voru þeir annað hvort komnir upp í árnar eða að hanga í ósasvæðinu að undirbúa göngu. Ekki bara það, heldur sáum við óhemju af eldislöxum sem okkur tókst ekki að ná og þeir synda því frjálsir núna í þessum litlu og viðkvæmu ám.
Við sáum aldrei neinn frá þeim sem eiga að stunda eftirlit með þessu, engan frá Fiskistofu, og engan frá sjókvíaeldisfyrirtækjunum. Það er sorglegt að segja frá því að á þessum stutta tíma tókst okkur að fanga fleiri eldislaxa en Fiskistofa hefur náð síðan þessir laxar sluppu.
Elías er hér að virða dásemdina fyrir sig, 14 punda, lúsétinn og uggaskemmdur. Myndirnar eru allar fengnar að láni af FB síðu Elíasar.
Nú berast daglega fréttir af því að eldislaxar séu að veiðast í mörgum af þekktustu ám landsins og ekki sér fyrir endann á því. Þetta er svo sorgleg staða og við erum að horfa á villtu laxastofnana okkar erfðablandast, mengast og þurrkast út í beinni útsendingu. Sjókvíaeldisiðnaðurinn, stjórnvöld og eftirlitsstofnanir axla ekki ábyrgð. Hver á þá að gera það?“
Já þegar stórt er spurt Elías, því að það er ekki nóg með að þeir sem hafa með málið að gera axli ekki ábyrgð, heldur er af orðum og athöfnum þeirra að skilja að þeim sé bara slétt sama. Þessi lýsing Elíasar bætist við þær margar að undanförnu sem að nóta bene, eru flestar ættaðar frá því að Petróslysið átti sér stað. Ekki að það sé fyrsta slysið, en það sem setur þetta á svig við önnur er stærðin á löxunum kynþroski þeirra og árstíminn, þ.e. haustið að ganga í garð, mál að hrygna. Hver laxinn af öðrum háfaður upp úr laxastiagnnum í Ennisflúðum í Blöndu, augljósir eldislaxar dregnir úr Vatnsdalsá, Hópinu, Miðfjarðará, ám í Djúpinu, Hvolsá og Staðarhóls og svo núna síðast rúsínan í pylsuendanum, einn úr sama mótinu dreginn á vesturbakka Hólsár í Rangárþingi. Sá hefur nú heldur betur notað sporðinn sem talsmenn eldisfyrirtækja hafa jafnan talið eldislaxinum gagnslaus til flótta, hann hangi bara við kvíarnar og bíði eftir næstu máltíð!
Og við þetta bætist hinn ófögnuðurinn, hnúðlaxinn sem hefur verið að veiðast í umtalsverðu magni í ám um allt land, jafnt frægum laxveiðiám sem minna þekktum.