Fágætur stórlax úr Langá og vangaveltur um heimastofna

Jújú veiði hefur glæðst nokkuð eftir óveðurslægðina og skúraganginn í kjölfarið. Allt annað að sjá flestar árnar á sunnan- og vestanverðu landinu. Eins og alkunna er fara stóru hængarnir oft í vont skap á haustin. Sá stærsti í sumar í Langá er þar með talinn.

Karl Lúðvíksson, alias Kalli Lú, landaði í fyrradag stærsta laxi sumarsins í Langá, 98 cm. Sem er fágætt tröll í Langá, sem er fræg fyrir hversu eindregin smálaxaá hún er. Kalli setti inn status á FB síðu sína: „Loksins þegar Langá fór í sæmilegt haustvatn tók þessi 98 sm hængur í Glanna. Mældur og myndaður fór hann aftur í hylinn. Sá stærsti úr ánni í sumar!“

Svona drekar eru afar óalgengir í Langá. Samkvæmt kvarðanum sem oft er vitnað í þá nær þessi höfðingi ekki tuttugu pundum, en áreiðanlega 18-19 pundum. Sumum er slétt sama um vigt laxa, en aðrir eru spenntir fyrir að velta svoleiðis fyrir sér. Ritstjóri heyrði því fleygt í gær að þessi lax gæti ekki verið 98 cm. Ójú. Karl er mjög stórvaxinn og hann hefði getað skrökvað að okkur að laxinn væri enn stærri.

En þegar svona fágætir laxar veiðast í á eins og Langá rifjast upp eitt og annað er varðar einstaka stofna einstakra áa. Fyrir einhverjum áratugum síðan var mjög í tísku að sleppa seiðum alveg hreint hægri vinstri. Skipti engu hvort að menn væru að dæla í árnar seiðum af heimastofnum. Þetta var gert í góðri trú en nú vita menn betur og gera þetta ekki lengur. Þessar seiðasleppingar breyttu heimastofnum og sérstaklega þótti Kollafjarðar/Elliðaárstofninn gera strandhögg, en hann var æði víða notaður.

En þessi stofnamálefni. Langárlaxinn er þekktur fyrir að vera smár, 3-5 pund, og „stórlaxar“ af heimastofninum gjarnan 8-10 pund. Þangað til að seiði úr öðrum ám voru sett í ána. Ekki er víst að ritstjóri muni þetta allt í smáatriðum, en án vafa var seiðum úr Laxá í Aðaldal sleppt í ána í einhver ár og uppúr því fóru oftar að veiðast stærri laxar, gjarnan 11-16 punda. Og þeir laxar voru ekki þessir löngu sporðstóru laxar sem einkenndu heimastofninn, heldur þykkir kröftugir boltar og töldu menn sig þar þekkja laxa af stofni Laxár í Aðaldal. Svo hefur þetta þynnst út með tíð og tíma.

En samt eymir eftir af þessu og þegar risalax veiddist á Tannastaðatanga fyrr í sumar, töluðu kunnugir um að gaman væri að „gamli Hvítárstofninn“ ætti enn sína fulltrúa á svæðinu. Þá var vinsælt að bera saman stofna nágrannaánna Norðurár og Þverár/Kjarrár. Norðurá með sinn granna og rennilega lax, sem er talinn hafa mótast í gegnum árþúsundin af því að ganga í á með umtalsverðum fyrirstöðum, Laxfossi og Glanna. Og Þverá/Kjarrá með sinn stutta og þykka lax, mótaður af því að þurfa aldrei að stökkva fossa eða djöflast upp erfiðar flúðir. Fyrir þó nokkrum árum veiddi ritstjóri í tvo daga í Straumunum þar sem Norðurá rennur í Hvítá, en nokkru ofar í sveitinni er Brennan þar sem Þverá/Kjarrá mætir Hvítá. Þverárlaxinn fer allur í gegn um veiðisvæði Straumana á leið sinni ofar, en Norðurárlaxinn fer að sama skapi augljóslega þarna um, enda er veiðisæld þessa staðar oft með ólíkindum.

Rittjóri dró þarna nokkra laxa, en tveir þeirra voru minnistæðari en aðrir. Þetta var fyrir tíma almennra sleppinga á 70 cm plús löxum, a.m.k. gilti ekki sú regla í Straumunum á þeim tíma. Umræddir laxar voru því slegnir af og vigtaðir á tölvuvog. Báðir voru nýgengnir með lús. Sá smærri var 72 cm en vóg ekki nema 3,2 kg. Sá var grannur og rennilegur, Norðurárlax. Sá stærri var 75 cm, ekki nema 3 cm lengri, en vóg samt 4,4 kg, eða tæp 9 pund. Sá var afar þykkur, lax úr Þverá/Kjarrá. Og sá síðarnefndi var auk þess sérkennilegur á litarháttinn því að bakið var með brúnleitum blæ. Oft var talað um „brúnbaka“ hér áður fyrr, en ekki svo mikið lengur.

Þetta eru nú bara útúrdúrar, og kannski einn í viðbót fyrst að talið hófst á fágætum stórlaxi í Langá og lýsingu heimastofni árinnar. Nú er það þannig að Þegar Langá byrjar sitt ferðalag til sjávar uppi í Langavatni, þá er Gljúfurá með systur sinni. Inni á „Fjalli“ klýfur Gljúfurá sig frá og fellur til Norðurár skammt ofan við Straumana. Afgangurinn af vatninu, og meirihluti þess, heldur för sinni áfram og fellur til sjávar skammt vestan við Borgarnes. Þarna er líklega stærsta landeyja Íslands. En Gljúfurárstofninn er svo furðulega líkur heimastofni Langár að undrun sætir. Að upplagi sömu 3-5 punda rennilegu laxarnir með stóran sporð. Samt þróuðust þessir stofnar hvor i sínu lagi og höfðu engan samgang, löngu áður en Langárlax gat komist niður í Gljúfurá eftir alla þá fiskvegagerð sem þar var gerð síðustu áratugina. Aldrei hefur lax úr Gljúfurá komist upp í Langá, því Klaufhamarsfoss stöðvar för hans.