Ánægja með opnun Þverár

Andrés Eyjólfsson og Ingólfur Ásgeirsson með fyrsta laxinn úr Þverá í gær, laxinn veiddist í Kirkjustreng.

Þverá var opnuð í gær og var almenn ánægja með gang mála af hálfu viðstaddra. Það er alltaf spurning hvernig opnanir verða, en þessi var góð.

Alls var 7 löxum landað á fyrri vaktinni og eitthvað bættist við á þeirri seinni og væri gaman að geta tíundað það nánar. Athygli vakti að lax veiddist víða á svæðinu, sá fyrsti kom úr Kirkjustreng, en svo komu laxar allt frá neðstu stöðum upp í þá efstu. Mikið vatn er í ánni eftir mikið vatnsveður, en góð skilyrði engu að síður. Kjarrá, efri hluti Þverár opnar svo í dag og sjáum hvað setur með fregnir þaðan þegar líður á daginn og inn á kvöldið.