Lax að sjást víða og nýjar opnanir í vikunni

Myndin sem Kjósverjar birtu úr Neðra Gljúfri í sumar. Laxinn, sem er stór, er greinilegur á miðri myndinni.

Laxaopnanirnar halda áfram og „next up“ eru Þverá á morgun og efri hluti hennar Kjarrá, á föstudaginn. Þetta hefur rúllað á heildina litið vel af stað, Norðurá og Urriðafoss með fínar opnanir. Blanda rórri, en þó til muna betri en í fyrra.

Laxinn er líka farinn að sjást hingað og þangað, ekki síst í ám þar sem enn er nokkuð í að opni. Má nefna Laxá í Kjós, en umsjónarmenn þar á bæ birtu í dag mynd af laxi sem sást greinilega til í Neðra Gljúfri, en það er á fjórða veiðisvæði, ofan brúar við Vindáshlíð. Oft er talað um að snemmgengu laxarnir í Laxá í Kjós, þeir sem koma seint í mai og snemma í júní, rjúki hratt upp fyrir fossana neðst í ánni og „týnist“. Þarna fannst þó einn þeirra, en eflaust týnist hann aftur áður en fjörið byrjar á bökkum Laxár.

Falleg mynd tekin neðan við Kistukvísl í Laxá í Aðaldal. Myndin er fngin hjá Matthíasi Þór Hákonarsyni veiðileyfasala á Akureyri.

Þá greindu umsjónarmenn FB síðunar Big Laxá, sem sagt Laxár í Aðaldal, að „sumarið væri komið“ og var því hent fram í tilefni af því að fyrstu laxarnir hefðu sést í ánni, bæði í Sjávarholu og „Við Staurinn“. Þá er búið að sjá þann silfraða í Elliðaánum og Korpu. Og eflaust eru þeir fyrstu gengnir miklu víðar.