Núna er besti tíminn fyrir staðbundna silunginn, urriðinn enn iðinn við kolann og bleikjan að færast í aukana. Við höfum hlerað góða hluti víða að og við ætlum að taka það saman, nú þegar smá hvíld er í opnunum fyrstu laxveiðiána.
Það er kannski fyrst að nefna Hlíðarvatn í Selvogi. Þar hefur veiði staðið síðan í maibyrjun og byrjaði strax alveg þokkalega. Þrátt fyrir þrálát hvassviðri og oft rigningu í sambland, hefur veiðin þar verið á köflum mjög góð. Kaflaskipt þó eftir aðstæðum, þó svo að við höfum heyrt af veiðimönnum sem stóðu af sér alger veðurfarsleiðindi og veiddu vel. Og það hafa verið vænir fiskar í aflanum. Einn veiðimaður skráði upplifun sína nýverið á FB síðu Hlíðarvatnsvina, sagði þar frá 11 fiska veiði þar sem stærsta bleikjan var 5 pund og tvær til viðbótar 3 pund. Þá hafa 50-56 cm bleikjur verið skráðar í flesta veiðikofana við vatnið. Borið hefur á meintum veiðiþjófnaði við vatnið. Gulklæddir veiðimenn með beitu, Bónuspoka og letingja. Gæsla er hins vegar af skornum skammti og ekki ólíklegt að óprúttnir gangi á lagið.
Þá greinir Kristinn Ingólfsson, eigandi veiðileyfavefsins www.veida.is, frá því að veiði sé nú að stóraukast í Hólaá. Skilyrðin séu óðar að myndast að bleikjan láti sig húrra þangað ofan úr Laugarvatni þar sem veiðin hefur verið afar góð síðustu vikur, að sögn Kristins. Hundruð bleikja og stærðin góð.
Ef við vippum okkur yfir í fjarlægasta landshlutann, Norðausturhornið, þá er sjóbleikja farin að gefa sig í Fögruhlíðarós. Þar var byrjað að veiða um síðustu mánaðamót, enda byrjar bleikjan oftast að gefa sig fyrr í sjávarlónum þar sem gætir flóðs og fjöru, mun fyrr heldur en uppi í ánum. Í lónunum er það atferli hennar að sigla inn með flóðinu og síga til baka í útfyrinu. Það þarf því að tímasetja veiðitúr á slíka staði af kostgæfni og það kann Sigurður Staples, Súddi, sá kunni veiði- og veiðileiðsögumaður fyrir austan. Lítið hafði verið farið í í Fögruhlíðarósinn en Súddi reiknaði þá út hvenær best væri að fara, skellti sér og landaði á þriðja tug fiska. Mest var það væn sjóbleikja, en einnig voru nokkrir birtingar í aflanum.