Nýr veiðiklúbbur til styrktar lax- og náttúruvernd

Fallegur lax.

Formleg stofnun nýss veiðiklúbbs var staðfest með hófi síðast liðinn laugardag. Klúbburinn stendur fyrir eitt og annað, ekki síst til að styrkja verndun laxastofna með stuðningi við Iceland Wildlife Fund, IWF.

Hér er hann, auðþekktur á árvatnsbláum litnum.

Klúbburinn heitir Á Fly Fishing Club og er runninn undan rifjum æskuvinanna Styrmis Elí Ingólfssonar og Vigdísarsonar, Eriks Koberling og Egils Ástráðssonar. Gefa þeir til kynna að hugmynd að klúbbnum hafi fæðst á árbakkanum, en þessir ungu menn deila allir heitri ástríðu fyrir fluguveiði í bland við náttúruvernd. Að vera með náttúrunni, félagsskapnum og verndarsjónarmiðum, eins og þeir félagar lýsa því. Því fylgir að auka skilning og þekkingu á náttúrunni um leið og staðinn er vörður um veiðiár og lífríki þeirra.

Til að afla tekna til að styðja við IWF hefur ÁFFC hafið bruggun á sérstökum bjór sem ber heitið Morning Shift Lager (Morgunvaktar hressingin?) og mun ágóði af sölu bjórsins renna til IWF. Hvað sem síðar verður, þá fæst Morning Shift Lager ekki í Vínbúðinni, en hægt er að panta mjöðinn hjá Ægir Brugghúsi, auk þess sem forkólfar klúbbsins gera sér vonir um að veitingahús og pöbbar muni taka drykkinn í sölu.

Lesendur geta kynnt sér málið nánar með því að fara á FB og slá inn Á Fly Fishing Club.