Fjörið heldur áfram í Norðurá en Blanda fer hægt af stað

83 cm úr Blöndu í morgun. Mynd frá Störum.

Á heildina litið er laxveiðin að fara af stað með mjög viðunandi hætti. Fín byrjun í Urriðafossi, fín byrjun í Norðurá, en heldur rórra yfir Blöndu.

Blandaði opnaði í morgun og þar gerðist ekkert fyrr en um klukkan ellefu að fyrsti laxinn tók og var landað. Þar var að verki Þorsteinn Stefánsson og mesta athygli vakti að laxinn var eins árs úr sjó, en þetta er mjög snemmt fyrir þann árgang. Þegar þeir smærri veiðast snemma vertíðar vilja margir tengja það við sterkt smálaxaár. En tíminn verður að skera úr um hvernig það fer allt saman. Hvað sem því líður voru menn að vonast eftir meira fjöri í ljósi þess að nokkuð af laxi hafði sést í ánni í aðdraganda opnunardagsins. En í dag er stórstreymt og best að sjá til hvernig fer. Seinna kom svo að minnsta kosti einn til viðbótar á land, 83 cm.

Alvöru nagli, 94 cm og sá stærsti úr Norðurá til þessa. Veiðimaðurinn er Dagur Elí Svendson og myndina tók Ingvar Svendsen.

Norðurá var með allt í lagi byrjun á fyrstu vakt í gær, 5 á land og síðan sprakk allt betur út á seinni vaktinni. Þá veiddust 9 laxar til viðbótar og alls 14 yfir opnunardaginn Í morgun heyrðum við síðan að á annan tug laxa hefðu komið á land. „Meira fjörið hér í Norðurá,“ skaut Sigurjón Ragnar veiðileiðsögumaður inn á FB síðunni sinni. Seinni þartinn í gær komu loks fyrstu laxarnir sem voru 80 cm plús, sá stærsti 94 cm. Sá veiddist í Hornbreiðu sem er í Stekknum. Þá veiddist fyrsti smálaxinn einnig í gær, þannig að þeir fyrstu af þeim árgangi hafa þannig skilað sér bæði í Blöndu og Norðurá. Lax var sjást, taka og veiðast víða í Norðurá, sem veit vissulega á gott, því stundum eru aðeins 2-3 staðir að gefa í byrjun vertíðar.