Líflegt í opnun Norðurár

Jón Þorsteinn með þann fyrsta úr Norðurá í morgun, 70 cm nýrenning. Myndina tók Nuno Servo og fengum við hana að láni af FB síðu hans.

Laxveiðin er að fara nokkuð vel af stað. Norðurá var opnuð í morgun og var fiskur víða, en tók grannt. Góður gangur er í Urriðafossi í Þjórsá og í fyrramálið byrjar ballið í Blöndu.

Fimm löxum var landað á fyrstu vakt í Norðurá og var Eyrin heitasti staðurinn. Fiskur gaf sig þó mun víðar að flugunni og má nefna Brotið, Stokkhylsbrot, Laugarkvörn auk Munaðarness. Mönnum þótti laxinn taka fremur grannt. Laxarnir voru 70 til 79 cm og frekar óvænt að ekki kæmi yfir 80 cm fiskur á land. Á móti kemur að laxarnir voru allir í frábærum holdum.

Þá bárust fregnir þess efnis að fínn gangur væri í Urriðafossi í Þjórsá. Eftir ágætis opnun voru stangirnar á svæðinu í gær komnar með hátt í tug laxa og í dag fréttum við að 17 hefði verið landað. Það verður ekki mikið betra í vorveiði.

Þær opna síðan hver af annarri og í fyrramálið er það Blanda. Áin hefur litið vel út síðustu daga og fiskur verið að sjást. Höskuldur Birkir Erlingsson, sem fylgist jafnan grannt með Blöndu sagði í spjalli að hann hefði séð laxa síðustu daga, bæði á Breiðunni að austan og í Holunni. Á morgun, 5.6 er stórstreymt og má því búast að enn bæti í laxatölurnar.