Aðalfundur SVFR er haldinn í dag og er óhætt að segja að hann sé sögulegur. Kona tekur við formennsku í fyrsta skipti í sögu félagsins og að sama skapi eru konur í fyrsta skipti í sögunni í meirihluta í stjórn.
Það er Ragnheiður Thorsteinsson sem að tekur við formannsstólnum. Jón Þór Ólason fráfarandi formaður, sem tók við 2018, gaf ekki kost á sér, en Ragnheiður gaf ein kost á sér til formanns. Sjálfkjörið sem sagt.

Jón Þór tók við viðkvæmu búi 2018, en undir hans handleiðslu hefur öflugur byr komið í seglin og tvö síðustu árin voru bestu rekstrarárin í sögu SVFR. Vel að verki staðið þar sem m.a. var siglt í gegn um heimsfaraldur. Eitt af hans síðustu embættisverkum var að skrifa undir samning við landeigendur Haukadalsár um áframhaldandi veru félagsins við þá fallegu á. Hann mun taka við formennsku í fulltrúaráði SVFR. Ragnheiður tekur því við traustu búi. Hún hefur setið í stjórn í áratug og hefur því séð tímana tvenna í rekstri félagsins. Mikil reynsla hennar ætti að koma félaginu til góða á komandi misserum.
Og nú verða konur í meirihluta í stjórn SVFR og hefur það aldrei gerst fyrr. Auk Ragnheiðar verða í stjórn Helga Jónsdóttir og nýliðarnir Brynja Gunnarsdóttir og Dögg Hjaltalín. Fyrir voru karlarnir Halldór Jörgenson, Hrannar Pétursson og Trausti Hafliðason.