Uppsveifla í Rangárþingi

Stefán Sigurðsson með 97 cm tröllkarl úr Ytri Rangá. Mynd Harpa Hlín.

Komnar eru lokatölur fyrir Ytri og Eystri Rangá, en enn er beðið lokatalna úr Affalli og eystri bakka Hólsár. Ljóst er að nokkur uppsveifla var í Rangárþingi miðað við síðasta sumar.

Það er aðallega Ytri Rangá sem sýndi góðan lit og bætti sig úr 3437 löxum í fyrra í 5086 laxa í sumar. Þetta er plús upp á 1646 laxa. Plús er plús og þó að áin hafi í sínum bestu árum verið betri þá er þetta vel stigið fram.

Uppsveiflan var minni í Eystri Rangá sem skilaði 3807 löxum á nýliðinni vertíð á móti 3274 í fyrra. Plúsinn þar er 533 laxar og eins og sagt var um Ytri Rangá, plús er plús og þessar ár, Ytri og Eystri voru með hæstu laxatölur vertíðarinnar. Bæta má við 403 löxum af eystri bakka Hólsár sem bauð upp á 39 laxa plús frá í fyrra þegar svæðið gaf 364 laxa. Hafa ber þó í huga að talan yfir eystri bakkann miðast við 5.10, en veitt var lengur og talan því líklega eitthvað hærri.

Þó að Affallið sé ekki tengt Rangánum, þá er áin sambærileg sleppitjarnará og var með risa plús frá síðasta sumri, 1050 á móti 508 í fyrra, plús upp á 533 laxa, meira en allt síðasta sumar. Hér, líkt og á eystri bakka Hólsár, er ekki lokatala, heldur eru síðustu tölur frá 12.10. Á endanum hefur því plúsinn orðið eitthvað hærri.