Risalax veiddist í klakveiði í Lagarfljóti

Jóhannes fiskifræðingur með tröllið. Myndin er fengin hjá www.laxfiskar.is

Lagarfljót og hliðarár þess hafa ekki verið rómuð fyrir laxgengd og sérstaklega eftir að drullan úr Jöklu var veitt í Lagarfljót hefði mátt ætla að þær laxagöngur sem þó létu á sér kræla væru úr sögunni. En hvað má segja um þessi tíðindi?

Jóhannes Sturlaugsson fiskifræðingur hjá Laxfiskum hefur verið í verkefni þar eystra með Veiðifélagi staðarins í því augnamiði að athuga hvort að glæða mætti laxagöngur í hliðarár Lagarfljóts, en þær eru all nokkrar og flestar afar fallegar. Silungsveiði er það fyrir og sums staðar mjög góð. En Jóhannes var við klakveiðar í Fljótinu fyrir skemmstu og gefum honum nú orðið:
„Lagarfljótsormurinn lenti í neti hjá mér um daginn. Ég var við klakveiðar í Lagarfljóti í byrjun októbermánaðar þegar ofurskepna gekk í eitt netið sem ég var að vakta. Netin lagði ég til að afla lifandi laxa í því skyni að ala undan þeim seiði vegna fiskræktarrannsóknar sem ég er að vinna að í hliðarám Lagarfljóts fyrir hönd Veiðifélags Lagarfljóts. Ofurskepnan gekk í netið með þeim látum að margir metrar af blýþungu netinu tókust ítrekað á loft. Þegar nær dró sá ég að ofurskepnan reyndist vera leginn lax í yfirstærð; lax sem er líklega stærsti lax sem veiðst hefur hérlendis úr fiskræktarsleppingu.
Laxinn er runnin frá seiðasleppingum fiskræktarrannsóknar í hliðarár Lagarfljóts sem ég er að vinna að fyrir Veiðifélag Lagarfljóts, en Landsvirkjun er fjárhagslegur bakhjarl verkefnisins. Laxatröllið er hundraðkall þ.e.a.s. einn þeirra fáu laxa sem ná því að vera 100 cm langur eða lengri. Við mælingu á bökkum Lagarfljóts var hængurinn sléttir 101 cm að lengd, en frá þeim tíma hefur sú ummyndun hauss laxins eða öllu heldur skoltanna og tilheyrandi króks sem fylgir hrygningartímanum, leitt til þess að hann mælist nú 102 cm langur. Ekki þarf að fjölyrða um það að laxinn góði er yfir 20 pund að þyngd en hversu mikið þyngri hann er liggur enn ekki fyrir vegna þess að vog var ekki við hendina í klakveiðinni. Sama dag og ég veiddi laxatröllið þá keyrði ég hann með viðhöfn í tanki á þriðja hundrað kílómetra í seiðaeldisstöðina að Laxamýri Í Aðaldal þar sem svil hans eru þegar farin að frjóvga hrogn hrygna úr Lagarfljóti.
Til stendur af minni hálfu að heimsækja þennan merkislax að Laxamýri innan tíðar og við þá endurfundi verður þyngd hans mæld. Saga þessa Lagarfljótströlls er þó ekki öll sögð. Saga sem er á fleiri en eina vegu einstök. Í því sambandi má nefna að ég hafði ítrekuð persónuleg kynni af laxinum góða á mismunandi lífsstigum hans – reyndar kynntist ég einnig „foreldrum“ hans, því ég veiddi laxana í klak sem Lagarfljótströllið er undan og flutti þá frá Lagarfljóti að Laxamýri. Strax í bernsku Lagarfljótströlla kynntist ég honum, því ríflega einu og hálfu ári eftir að ég flutti „foreldra“ hans að Laxamýri, kom ég ásamt Dalrúnu dóttur minni og sérlegum aðstoðarmanni að Laxamýri að nýju, en nú til þess að örmerkja seiðin undan löxunum. Að aflokinni merkingu seiðanna var farið í að flytja seiðin austur á Hérað þar sem heimamenn tóku á móti okkur til að vinna með mér að sleppingum seiðanna í hliðarár Lagarfljóts. Eitt þeirra þúsunda laxaseiða sem þaðan gekk í sjó, góðvinur vor Lagarfljótströlli, óx öðrum seiðum meira í sjó og skilaði sér íturvaxinn heim í Lagarfljót. Þar tryggðu fyrrnefndar netaveiðar mínar ánægjulega endurfundi okkar. Meðfylgjandi mynd af mér og Lagarfljótströlla var tekin við það tækifæri á bökkum Lagarfljóts.“