Smá uppgjör fyrir laxasumarið 2022

Ægissíðufoss, Ytri Rangá
Veitt í Ægissíðufossi í Ytri Rangá.

Laxveiðin 2022 er svo gott sem búin, allar ár lokaðar nema örfáar sleppitjarnarár á Suðurlandi sem munu loka á fimmtudaginn nk. Talað er gjarnan um þriðja, jafnvel fjórða, slaka laxveiðiárið í röð. VoV gluggaði á angling.is og tók saman samanburðartölur frá sumrinu 2021 í 42 laxveiðiám.

Af þessum 42 ám var veiðin betri í 30 ám, en lægri í 12 ám. Hafa þarf í huga þegar þessar tölur eru skoðaðar, að viðmiðunarsumarið 2021 var að flestra mati arfaslakt þegar á heildina er litið. Bætingar í einstökum ám eru þó alltaf gleðilegar, þó að í flestum tilvikum hafi umræddar ár verið nokkuð langt frá þeim tölum sem hífðust úr þeim á góðærisám Atlantshafslaxins. Þá eru plús-hækkanirnar afar misjafnar, allt frá EINUM laxi, í Laxá í Aðaldal og upp í 610 laxa plús í sjálfbærri á, Hofsá og 1521 lax úr slepppitjarnará, Ytri Rangá ásamt vesturbakka Hólsár og voru þó nokkrir dagar eftir á þeim bæ, veiði lýkur þar á fimmtudag.

Við ætlum að landsflokka árnar sem við tökum til samanburðar, því þar má sjá visst mynstur, t.d. má nefna í þeim efnum bættar tölur á Norðausturhorninu og í ám á Suðurlandi, en þar eru m.a. helstu sleppitjarnarárnar. Við hefjum förina á Suðvesturlandi.

Suðvesturland

Elliðárnar: Þar veiddust nú 798 laxar á móti 617 í fyrra, bæting um 181 lax. Þar er nú öllum laxi sleppt og því eflaust eitthvað af tvíveiddum laxi. Eigi að síður var það mál manna að talsvert hafi verið af fiski.

Úlfarsá: 213 laxar í sumar á móti 208 í fyrra, plús upp á 5 laxa. Eiginlega sama veiðin, en áin er samt í plúshópnum.

Leirvogsá: Þar var 455 landað á móti 279 í fyrra, plús upp á 176 laxa sem er auðvitað flott, en áin hefur all nokkrum sinnum gefið mun meiri veiði.

Laxá í Kjós: Þar komu 1010 laxar á land á móti 1066 í fyrra. Lengi vel leit ekki út fyrir að áin næði að hífa sig í fjögurra stafa tölu, en frábær veiði síðustu daganna breytti því snarlega. Þá veiddust nokkur hundruð sjóbirtingar, margir stórir þar á meðal. Menn voru því býsna sáttir í Kjósinni þó að laxatalan hafi verið mínus 56.

Laxá í Leirársveit: Þar komu 804 laxar á móti 850 í fyrra, sem sagt mínus 46. Drjúg sjóbirtingsveiði gaf veiðinni þó aukið líf, líkt og í Kjósinni.

Vesturland

Andakílsá: Þar var lakari veiði en í fyrra, 344 á móti 518, mínus upp á 169 laxa.

Grímsá: 827 laxar á móti 728 í fyrra, plús upp á 99 laxa. Sem er fínt, en áin er vön að gefa betur í miðlungs- til góðum árum.

Flóka: Þarna var skemmtilegur viðsnúningur frá 2021, 519 nú á móti 281 þá. Flottur plús upp á 231 lax. Og það á aðeins þrjár stangir.

Þverá/Kjarrá:  Í ánni veiddust alls samanlagt 1448 laxar á móti 1377 í fyrra. Plús þar upp á 71 lax. Jákvætt að fá plús, en áin hefur yfirleitt verið að gefa meira.

Norðurá: Þarna var mínus upp á 79 laxa, 1352 laxar nú, 1431 í fyrra. Það er gott að sjá ána vel yfir 4 stafa tölu, en þetta eru í besta falli þokkalegar tölur.

Gljúfurá: Þessi hliðará Norðurár var með lítinn plús, fór úr 244 í fyrra í 261 laxa nú. Plúsinn er 17 laxar. Smá fróðleikspunktur um Gljúfurá. Hún er kvísl úr Langá og saman mynda árnar þrjár stærstu landeyju á Íslandi.

Langá: Langá var afar slök í fyrra með aðeins 832 laxa, sem þykir lítið þar á bæ. Lengi vel leit út fyrir slíkt hið sama í sumar, en áin er þekkt fyrir góð skot á haustin og það gekk eftir að þessu sinni, nóg til að áin klifraði upp í 4 stafa tölu, 1077 sem gaf plús upp á 245 laxa.

Hítará: Hítará endaði með 708 laxa sem var 160 löxum í plús miðað við í fyrra, 548 laxar þá. Þetta er í raun ein besta tala sem lengi hefur sést í ánni.

Haffjarðará: Áin er enn á niðurleið, var nú með 870 laxa á móti 914 í fyrra, mínus upp á 44 laxa. Áin langt frá sínu besta.

Straumfjarðará: Áin var þokkaleg að því leyti að hún hefur oft gefið betur, 374 laxar nú, 370 í fyrra, 4 laxar í plús gæti varla verið minni plús en dugar til að áin fer í plúsflokk.

Miðá: Lítil veiði þar síðustu sumur miðað við það sem einu sinni var, 134 laxar í sumar, 170 í fyrra, mínus upp á 36 laxa.

Haukadalsá: Áin var í mínus í sumar, 380 laxar nú, 447 í fyrra. Mínusinn er 67 laxar.

Laxá í Dölum. Stór mínus í ánni, alls 761 landað á móti 1023 í fyrra, mínusinn 262 laxar. Þetta er slök útkoma í ánni, sem er þekkt fyrir þurrka og reytingsveiði yfir sumarið en risamok á haustin. Þetta árið var vatnið gott alla vertíðina og því komu þessi kjörskilyrði á haustin ekki jafn sterk inn og svo oft áður.

Tölur í helstu ám á Vestfjörðum eru ekki til reiðu á angling.is, helstar þar eru Laugardalsá og Langadalsá. Við höldum því út á Norðurland.

Norðurland vestanvert

Hrútafjarðará: Áin var slök, gaf 257 laxa á móti 371 laxi í fyrra sem einnig þótti slakt. Mínusinn er 114 laxar og munar um minna í þriggja stanga á.

Miðfjarðará: Mínusinn þar var stór, 274 laxar, 1522 s.l. sumar á móti 1796 í fyrra. Það er úr háum söðli að detta því fyrir fáum árum var Miðfjarðará alger súperá. Fyrr á árum hefðu þetta þó þótt ásættanlegar tölur.

Víðidalsá: Þarna var smá plús, 73 laxar, 810 laxar nú, 737 í fyrra. Þetta eru hvoru tveggja slakar tölur miðað við ána í meðalgóðu til fínu formi. Að vera í plús er samt alltaf eitthvað.

Vatnsdalsá: Áin er í öldudal, enn eitt slakt sumarið þar með 415 laxa á móti 427 í fyrra. Þetta er tólf laxa mínus. Við má bæta að bleikjunni hefur snarfækkað í ánni, líkt og í Víðidalnum. Sjóbirtingi hins vegar fjölgað og bætir nokkuð upp laxa- og bleikjudeyfðina.

Laxá á Ásum: Gullaldarárin eru á bak og burt þegar áin fór vart undir 1200 laxa á tvær stangir. En samt varð þarna skemmtilegur viðsnúningur sem leit kannski ekki út fyrir að kæmi til greina svona framan af. Áin endaði með 820 laxa á móti 600 í fyrra, þarna er því plús upp á 220 laxa.

Blanda: Áin hefur verið á blússandi niðurleið síðustu sumur, en hjarnaði aðeins við í sumar, gaf 577 laxa sem þykir að vísu ekki gott í Blöndu, en er samt 159 löxum meira en í fyrra.

Svartá: Þrátt fyrir að smá líf færðist yfir Blöndu, þá lenti hliðaráin Svartá í mínusflokki, gaf aðeins 189 laxa á móti 201 laxi í fyrra sem þótti einnig afar slakt. Mínusinn er þó ekki nema 12 laxar.

Norðurland eystra

Fnjóská: Smá plús þarna, 26 laxa uppsveifla, en þetta eru þó ekki spennandi tölur úr þessari mikilfenglegu á, 257 laxar í sumar, 231 í fyrra.

Laxá í Aðaldal: Áin hefur verið að snarpri niðurleið síðustu árin, en mögulega er botninum náð, því áin smyglaði sér upp í plúsflokk með því að vera með einum laxi meira en í fyrra, 402-401!

Mýrarkvísl: Áin er hliðará Laxár í Aðaldal og rennur í hana ofan við Heiðarenda. Á sama tíma og Laxá buslar til að halda sér á lífi var fín uppsveifla í Mýrarkvísl og lax að veiðast þar fyrr á sumri en venja er. Áin gaf nú 272 laxa á móti 180 í fyrra og er plúsinn 92 laxar.

Deildará: Skjótum henni hér inn, erum ekki alveg vissir um hvort hún tilheyri austanverðu Norðurlandi eða „Norðausturhorninu“. Deildará hefur oft verið betri, en skilaði þó 17 laxa plús í sumar, 185 löxum á móti 168 í fyrra.

Norðausturland

Svalbarðsá: Líkt og allar árnar á þessu svæði, frá Þistilfirði og niður í Jöklu var umtalsverður bati á veiðitölum þó að hærri tölur hafi oft sést víða á svæðinu. Svalbarðsá fór t.d. úr 237 löxum í fyrra og upp í 381 lax í sumar, plús upp á 144 laxa. Munar um minna í þriggja stanga á.

Sandá: Hér vantar viðmiðunartölu frá 2021 en við höfum það eftir kunnugum og reyndum mönnum að veiðin í sumar, 372 laxar, hafi verið mun betri en í fyrra og „mikið af laxi í ánni og mikið af stórum fiski,“ eins og komist var að orði.

Hafralónsá: Væn uppsveifla hér líka frá síðasta ári, 388 í sumar á móti 226 í fyrra, plús upp á 162 laxa.

Miðfjarðará við Bakkaflóa: Hér var einnig flott uppsveifla, áin fór úr 107 löxum í fyrra upp í 227 laxa, plús upp á 120 laxa.

Selá: Selá var með fínan viðsnúning frá síðasta sumri, sem var reyndar mjög slakt – 764 laxar, en uppsveiflan góð, 1164 í sumar og plús upp á 400 laxa.

Hofsá: Af sjálfbærum ám landsins sló Hofsá í gegn. Eftir að hafa verið sígandi upp á við síðustu sumur eftir mögur ár, kom bakslag í fyrra þegar einungis 601 lax veiddist. Í sumar urðu þeir 1211 talsins og plúsinn heilir 610 laxar.

Jökla: Þar búa menn við þetta þreytandi yfirfall sem klippir á veiðiskapinn síðsumars eða snemma hausts. En þarna var einnig uppsveifla í sumar, 803 laxar á móti 540 í fyrra, plús upp á 263 laxa á þeim bænum.

Á Austfjörðum er það einkum Breiðdalsá sem hefur skapað sér nafn sem laxveiðiá, en áin verið í öldudal síðustu sumur og varð engin breyting þar á í sumar. Förum því á Suðurlandið til að loka hringnum.

Suðurland

Eystri Rangá: Hér líkur veiðinni á fimmtudaginn og síðasta tala sem angling.is birtir er frá 12.10. Þá var kominn 3691 lax á land á móti 3274 í fyrra sem er plús upp á 417 laxa og bæta má við, frá sömu dagsetningu 403 löxum sem höfðu veiðst á eystri bakka Hólsár.

Ytri Rangá: Hún lokar einnig á fimmtudag og síðustu tölur angling.is eru frá 12.10. Ytri, ásamt vesturbakka Hólsár, er með hæstu heildartölu íslenskra laxveiðiáa og var talan 4.958 þann 12.10 en mun vera komin yfir 5000 nú. En sé miðað við töluna frá 12.10  þá er plúsinn 1521 lax. En verður hærri þegar yfir lýkur.

Affall: Stór viðsnúningur á þeim bænum, úr 508 í fyrra í 1050 í sumar. Plúsinn þar 542 laxar. En hér erum við einnig að miða við 12.10 og áin lokar á fimmtudag. Þetta verða því hærri tölur áður en yfir lýkur.

Urriðafoss í Þjórsá: Hér vantar lokatölu, en sú síðasta sem birtist á angling.is er 983 laxar á móti 823 í fyrra. Þetta er plús upp á 160 laxa.

Tungufljót í Biskupstungum: Fínn bati hér frá fyrra sumri, 526 á móti 338. Plúsinn 188 laxar.

Stóra Laxá: Hér var rífandi bati frá fyrra sumri, 934 laxar á land (og sleppt aftur) á móti 564 í fyrra. Gott vatn alla vertíð og veiðin jöfn og góð. Ein besta tala úr Stóru í langan tíma.

Sogið: Hér vantar viðmiðunartölu frá 2021, en þá var veiðin afar slök í ánni. Nú í sumar var að mati kunnugra mun betri veiði og alls 303 laxar færðir til bókar.

Hér lokum við yfirreið okkar. Auðvitað eru miklu fleiri laxveiðiár á Íslandi en nefndar hafa verið, en þessi samantekt ætti að veita yfirsýn í vertíðina 2022.