100 laxa lokaholl í Kjósinni

Eitt af tröllunum sem fylgst hefur verið með í allt sumar og gaf sig loksins....myndin er fengin af FB síðu Laxár í Kjós.

Laxá í Kjós er ein þeirra áa sem virðast ekki ætla að ná tölu síðasta árs, en munurinn er svo lítill að hann er varla marktækur. Skilyrði í sumar voru oft erfið, en svo gerði frábær skilyrði og 100 laxar komu á land síðustu þrjá daganna!

Í fyrra skilaði áin 1066 löxum sem þótti prýðilega sloppið miðað við hversu slakt sumarið var svona almennt. Með þessum ævintýralega lokahnykk er áin alveg um þúsund laxa og ekki má gleyma að sjóbirtingar hlaupa á hundruðum og margir stórir.

Haraldur Eiríksson leigutaki árinnar skellti inn færslu á FB síðu Laxár og þetta höfum við eftir honum á þeim vettvangi: „Við vissum að áin væri full af fiski, en að hafa 100 síðustu 3 daga er alveg eitthvað. Og eins og spáð var, þá urðu þeir stóru sem við höfum fylgst með allt tímabilið virkir. Þvílíkur endir.“ Óhætt að taka undir það með Haraldi og vertíðin bara nokkuð flott þegar upp er staðið.