Óvenjulegt sumar í Minnivallalæk

Minnivallalækur, Arnarhólsflúð
Arnarhólsflúð í Minnivallalæk ljósaskiptunum. Mynd -gg.

VoV kom við á ferðum sínum í Minnivallalæk í vikunni. Kíkja á ána, kíkja í veiðibók og kíkja á þær breytingar sem Þröstur Elliðason leigutaki hefur látið gera á húsinu.

Húsið hefur alltaf verið krúttlegt í sínum þroskaða skógargarði við Húsabreiðuna. En það var tekið að lýjast og svo sprakk vatnslögn og setti allt á annan endan. Þá var það sem Þröstur tók þá ákvörðun að lappa upp á fleira en skemmda lögn. Skipt var um gólfefni, veggklæðningar og fleira. Allt upp á tíu nema að VoV saknar að búið er að taka út annað baðherbergið. En ekki kom það að sök.

Veiðin hefur verið köflótt og markast af því að framan af var ekki hægt að selja veiðileyfi með aðgangi að húsi. Svo komu nokkrar vikur með húsi, en eftirspurn hefur jafnan fjarað út í Minnivallalæk þegar líður á sumar og haust, sem er afleitt í raun vegna þess að það getur verið mjög drjúgur tími til veiða, enda urriðinn frægur fyrir að missa vitið þegar líður að hrygningu.

Samtals hefur verið skráður 141 urriði í bók. Það er auðvitað minna en venjulega en skýringana er að leita í textanum hér að ofan. Það vantar stóru tröllin 12 punda plús, en ansi margir 50 til 69 cm þannig að upp er að vaxa ný kynslóð trölla. Þá er eðli veiðanna annað, frárennslið úr Fellsmúlastöðinni er ekki lengur matarkista risaurriða. Nú vex fiskurinn víða um ána á því sem hún framleiðir náttúrulega og virðist gera það bara býsna vel.