Nú er haustið komið og þá kemur gjarnan smá þreyta í laxveiðina, nema þar sem blandað agn er leyft eftir stöðuga fluguveiði. Eftir írafárið eftir hugleiðingu okkar um svoleiðis veiðiskap þá snúum við okkur að öðru. Stóru tröllunum sem missa vitið á haustin.



Flestar af þessum fregnum koma gjarnan frá Laxá í Aðaldal og Vatnsdalsá, og svo er enn þó báðar hafi verið beinlínis lélegar í sumar. Gott til þess að vita að þessir fiskar sveima þar enn og vel mætti hugsa sér að fara í nokkra fisklausa túra og fá svo einn svona drjóla í lokin. Sumrinu reddað!
Hér birtum við nokkrar myndir sem áskotnast hefur nýlega, Laxá í Aðaldal, Blanda, Laxá í Kjós. Þeir eru ekki allir 100plús tröll, en allir gamlir, reiðir og stórir jálkar. Við ættum kannski að klára þessa vertíð með því að fylgjast með sjóbirtingstímanum, en hans tími fer nú í hönd.