Upp og ofan – Norðausturhornið sker sig úr

Hinn þekkti veiðileyfasali og veiðimaður Árni Baldursson átti afmæli í dag og hélt upp á daginn með því að landa þessari fallegu hrygnu í Laxá í Aðaldal.

Vikutölurnar eru komnar og sem fyrr er ljóst að þetta sumar verður ekkert afbragð. En sums staðar er staðan nokkuð góð, mun betri en í fyrra. Annars staðar er staðar er staðan ekki góð. Rangárnar eru efstar sem fyrr, en nokkrar ár hafa tekið kipp. Kíkjum á það helsta.

Ytri Rangá er efst í tölum, 3021 lax(3437 í fyrra heildarveiði) og vikan gaf 514 laxa. Þetta er þó svæði sem gefið er upp sem 24 stanga svæði. Örfá svæði á þessu svæði skera sig úr að gæðum og lítið veiðist á öðrum, en það dregur niður meðalveiði á hverja dagstöng. Eystri Rangá er í öðru sæti með 294 laxa viku og heildartölu upp á 2368 laxa sem er strax betra en í fyrra, þá veiddust 3274 laxar þannig að Eystri fer greinilega langt fram úr tölu sinni frá í fyrra. Eystri Rangá er gefin upp með 18 stangir og það er sama sagan þar, nokkur svæði eru afar gjöful á meðan önnur eru slök.

Síðan eru einhverjar ár í næstu sætum, fínt fyrir lesendur að kíkja á þær á angling.is. Ein þeirra þó er Miðfjarðará sem þrátt fyrir niðursveifluna á þesum slóðum er í þokkalegum málum, vikan gaf 128 laxa og heildartalan er nú 1113. Lokatala í fyrra var 1796, en að á í þessum landshluta sé búin að ná fjögurra stafa tölu telst til tíðinda. Laxá á Ásum er líka að standa uppúr á þessum slóðum þó að hún sé langt frá sínum bestu árum, 95 laxa vika og heildartala upp á 695 laxa. Heildartalan í fyrra var 600 slétt.

En í Vopnafjörð. Í gær greindum við frá góðum bata í Sunnudalsá, hliðará Hofsár. Bæði Hofsá og Selá eru komnar vel fram úr lokatölum síðasta árs, sem var að vísu ekki gott ár þar um slóðir, en batinn er augljós. Hofsá var með 114 laxa viku og komin þá í 935 laxa. Í fyrra var snörp niðursveifla eftir góðan stíganda og þá kom aðeins 601 lax á land. Núna stefnir Hofsá í fluggír í góða fjögurra stafa tölu. Sama má segja um Selá, 141 lax þar eftir vikuna og alls komnir þá 892 laxar á land. 764 í fyrra þannig að batinn er góður og augljós. Hún er einnig að sigla í fjögurra stafa tölu. Af öðrum ám á svæðinu eru Miðfjarðará og Hafralónsá báðar komnar yfir lokatölu síðasta árs. Jökla er einnig á þessum slóðum, 66 laxa vika hífði veiðina í sumar í 649 laxa, en alls veiddust í fyrra 540 laxar. Eins og kunnugt er þá er Jökla mjög háð yfirfallinu. Hvenær það kemur veit enginn, en þá dregur all harkalega úr veiðigæðunum.

Laxá í Dölum hefur verið með stíganda eftir því sem liðið hefur á sumarið, síðasta vika gaf 74 laxa og var þá áin komin í 522 laxa. Í fyrra veiddust 1023 laxar og fáir munu veðja gegn því að áin að minnsta kosti jafni þá tölu því hausthollin í ánni eru oft stórfengleg.

Það mætti lengi halda áfram, en af ám í uppsveiflu má nefna Hafralónsá og Leirvogsá. Ár í Niðursveiflu, Laxá í Aðaldal, Vatnsdalsá, Víðidalsá, Langá og Haffjarðará. En lesendur, endilega heimsækið angling.is og kynnið ykkur nánar stöðuna í öllum helstu ánum. Þetta er áhugaverð lesning og spurningar skapast og svör fást.