Allur gangur á gangi mála

Veiði hefur verið lífleg í Ytri Rangá að undanförnu og mjög stórir fiskar í bland við þá smærri. Hér einn af stærri gerðinni, Manuel Plosser með 97 cm hæng úr Gunnugilsbreiðu.

Víða gekk laxveiðin með nokkrum ágætum í all nokkrum ám, en síður í öðrum skv nýjustu tölum frá angling.is. Eftirtektarvert er þó, að miðað við 3.ágúst voru aðeins tvær ár komnar í fjögurra stafa tölu, Rangárnar. Stutt þó í tvær í viðbót, Þverá/Kjarrá og Norðurá.

Við ætlum að renna hér yfir slatta af þeim ám sem tróna hæst í tölum og í þetta sinn látum við skráðan stangarfjölda fylgja með vikutölunni. Úr því alltaf lesa eitthvað.

Ytri Rangá. Komin í 1707 laxa eftir prýðis 525 laxa viku. Þarna eru upp gefnar 24 stangir á angling.is, en inni í þessum tölum eru einnig laxar og stangir af vesturbakka Hólsár. „Áin iðar af lífi og við munum skora hátt á þessari vertíð“, segja þau hjón Stefán og Harpa hjá Iceland Outfitters sem eru með utanumhald á veiðileyfum.

Glæsilegt eintak úr Eystri Rangá. Myndin er fengin af FB síðu Árna Baldurssonar.

Eystri Rangá.Komnir þar 1322 laxar og vikan gaf 467 laxa. Þarna eru gefnar upp 18 stangir.

Þverá/Kjarrá. 992 laxar þar og stutt í þúsundið. Vikan gaf 127 laxa á 14 skráðar stangir.

Norðurá. 930 stykki þar og styttist einnig í þúsund laxa. Vikan gaf 15 stöngum þar 129 laxa.

Urriðafoss. Fínasta vika þar og að sjá að vatnavextirnir á dögunum hafi bara alls ekki komið að sök. Vikan gaf 216 laxa á stangirnar fjórar og svæðið alls komið í 798 laxa. Þetta er eflaust besta meðalveiðin á hverja stöng heilt yfir.

Miðfjarðará. 675 laxar komnir þar eftir 223 laxa viku. Án þess að við sláum því föstu þá myndum við halda að þetta hafi verið lang besta vikan í ánni í sumar. 100 sentimetra hængur veiddist þar í vikunni, nánar tiltekið í Grjóthyl. Tíu stangir eru gefnar upp í Miðfjarðará og hliðarám hennar.

Langá. 607 laxar þar eftir 82 laxa viku á 12 stangir. Áin er í lægð en fullyrt er þó að góður slatti sé af laxi í ánni, erfiðar aðstæður hafi spilað rullu. Samt hlýtur þetta að teljast vera langt undir væntingum.

Glæsilegur hængur úr Tungufljóti fyrir skemmstu. Myndin er fengin af FB síðu Árna Baldurssonar.

Haffjarðará. Áin er líka í lægð miðað við fyrri ára frama. Þar voru komnir 573 laxar eftir 76 laxa viku. Þetta er þó ekki eins slæmt og í nágrannaánni Langá því afli þessi er skráður á 6 stangir.

Laxá í Kjós. Áin átti nokkuð góða viku, 134 laxa og umtalsvert af vænum birtingi að auki. Áin var þá komin í 530 laxa á 8 stangir.

Elliðaárnar. 70 laxa vika þar á sex stangir. Áin þá alls komin í 527 laxa.

Selá í Vopnafirði. 500 laxar komnir þar í bók eftir 103 laxa viku á sex stangir. Verður að teljast all gott þar sem skilyrði hafa verið mjög erfið, mjög mikið vatn, rigning, rok og kuldi meira og minna síðustu daga.

Hofsá í Vopnafirði. Látum Hofsá vera þá síðustu sem við nefnum úr efsta talnahópnum. Áin er komin í 498 laxa eftir góða 134 laxa viku á 6 stangir.

Lítum nú á nokkur dæmi um ár sem hafa verið að „ströggla“ í sumar, skoðum hvort að eitthvað rættist úr í liðinni viku.

Víðidalsá. 331 lax kominn þar á land og vikan gaf 69 laxa á 8 stangir. Það er um það bil einn og hálfur lax á dag  á hverja stöng. Allt við það sama þar sem sagt.

Vatnsdalsá. Einungis 173 laxar þar eftir 49 laxa viku á sex stangir. Það er rétt um 8 laxar á hverja stöng yfir vikuna. Allt við það sama þar sem sagt.

Laxá í Dölum. Talan er nú ekki há, aðeins 270 laxar, en ef grannt er skoðað  þá gaf vikan 119 laxa sem er það lang besta til þessa. Í vikunni skipti áin úr 4 stöngum í 6 stangir.

Hrútafjarðará. Komin í 78 laxa eftir 42 laxa viku á þrjár stangir. Ef þessi statistík er skoðuð nánar þá telur þetta 14 laxa á hverja stöng, eða tvo veidda á stöng á dag að meðaltali. Það er ekki svo slæmt, sérstaklega miðað við fjölmargar aðrar ár vítt og breytt

Við gætum bætt í þennan hóp ám á borð við Blöndu, Haukadalsá, Laxá á Ásum og fleiri, en það var aldrei ætlunin að tæma hér listann á angling.is.

Hinn danski Olav með glæsilegan boltalax úr Tungufljóti. Myndin er fengin af FB síðu Árna Baldurssonar, en fyrirtæki hans Lax-á hefur umsjón með ánni.

Síðan er að líta til áa og svæða sem hafa þvert ofan í normið verið að skila svo vel að þær eru komnar yfir heildartölu síðasta árs.

Miðfjarðará við Bakkaflóa. Hún er komin í 137 laxa á tvær stangir. Vikutalan liggur ekki fyrir en í fyrra gaf áin alls 107 laxa.

Flóka. Spútnikkinn í sumar, komin í 339 laxa eftir 34 laxa viku. Stangirnar eru þrjár og því ríflega tíu á hverja þeirra að meðaltali. Miðað við gang mála framan af sumri mætti ætla að farið sé draga úr. Straumurinn nú gæti þó breytt því, en áin gaf alls 281 lax í fyrra.

Skuggi. Þetta eru ármót Grímsár og Hvítár. Þar er nú rólegt, vikan gaf aðeins sjö laxa á þrjár stangir, en svæðið samt komið í 79 laxa, einum meira en allt síðasta sumar.

Brennan. Þetta eru ármót Þverár/Kjarrár og Hvítár og voru komin með 159 laxa á þrjár stangir skv nýju tölunum í dag. Vikan gaf 16 laxa þannig að þarna hefur róast eins og í Skugga. En lokatalan í fyrra var 112 laxar.

Straumar. Þetta eru ármót Norðurár, Gljúfurár og Hvítár. Við bjuggumst við því að áin yrði nú komin yfir lokatölu síðasta sumars, sem var 125 laxar, en allur vindur virðist nú ur laxagöngum í bili að minnsta kosti, vikan gaf aðeins 3 laxa á tvær stangir og talan nú því 121 lax. Vantar lítið upp á að gera betur nú en í fyrra. Spurning hvernig það fer ef göngur glæðast ekki á ný.

Loks mætti nefna til aðra á sem einhverjir myndu segja að væri ekki minni spútnikk en Flókadalsá. Þá erum við að tala um Tungufljót í Árnessýslu. Það er á sem byggir á sleppingu gönguseiða og ein af eindregnari síðsumarsám landsins. Eigi að síður voru komnir 146 laxar úr ánni við júlílok, sem er fáheyrð veiði úr ánni um hásumar. Alls veiddust þar í fyrra 338 laxar og var að mestu leyti síðsumars- og haustveiði. Það verður því fróðlegt að fylgjast með framvindu mála við Tungufljót þegar fram líða vikur, styttist jú í haustið, besta tímann í ánni.