Í gær veiddust 100 laxar í Eystri Rangá og eftir rólega byrjun í ánni framan af vertíð er nú góður kraftur í göngum. Dagurinn var líka fínn á eystri bakka Hólsár, sem er að uppistöðu Eystri Rangá, að viðbættri Þverá.
Þetta er vitaskuld lang besti dagurinn í ánni það sem af er sumri og meira í anda þess sem menn vildu sjá og þekkja til árinnar seinni árin sem þó hafa verið upp og niður. En veit vonandi á gott, þ.e.a.s. að göngukrafturinn haldist sterkur fram í ágúst (og helst lengur auðvitað) Það var veiðileyfasalinn Kolskeggur, sem hefur umsjón með Eystri Rangá, sem greindi frá þessu. Þar stóð: „100 laxar veiddust í Eystri Rangá í dag (í gær) og hellingur á Austurbakka Hólsár í viðbót. Neðsta svæðið í Eystri bókstaflega kraumaði af laxi. Spennandi tímar framundan!“