Fátt bendir til að 2022 taki 2021 fram

Veiði hefur gengið vel í Jöklu og áin greinilega fallegri en orð fá lýst. Þessa fengum við lánaða hjá Nils Folmer sem gerði þangað góðan tór fyrir skemmstu.

Vikutölurnar góðu frá angling.is eru komnar, en í stað þess að reifa vikutölurnar ætlum við að staldra við. Júlí, sem að öllu jöfnu er aðal mánuðurinn, „præmtæm“ er að klárast. 2021 var heldur skárra veiðisumar en afspyrnuslakt 2020. Þannig að skoðum lokatölur síðasta sumars og veltum fyrir okkur hvort eitthvað sé að batna.

Facebook er að vanda með urmul af færslum og statusum af gleiðbrosandi veiðimönnum með fallega laxa, enda verða til veiðisögur jafnt í góðum árum sem slæmum. En mergð af skemmtilegum stemningsmyndum segir ekki alltaf heila sögu.

Ef við pikkum út nokkrar ár af lista angling.is þá trónir nú Ytri Rangá ásamt vesturbakka Hólsár á toppnum með 1182 laxa. Í fyrra veiddust í heildina 3437 laxar og þótti ekki sérlega gott miðað við mörg fyrri ár. Þar er veitt fram í október og vel hægt að ímynda  sér að áin nái álíka árangri eða jafnvel betri. En fátt bendir til að þetta verði „stórt“ sumar á þessari veiðislóð.

Þverá/Kjarrá er í öðru sæti, komin með alls 865 laxa. Í fyrra veiddust þar 1377 sem var stór framför frá 2020. En ætli áin geri betur en að vera á svipuðu róli og í fyrra sem þótti rétt þokkalegt miðað við háan standard Þverár/Kjarrár?

Og Eystri Rangá, sem hefur átt all nokkur risasumur seinni árin. Fór hægt af stað og er nú í lok júlí komin með 855 laxa. Í fyrra veiddust þar 3274 laxar sem var framför frá 2020, en langt frá bestu sumrunum. Eystri gæti verið á svipuðu róli í lok vertíðar og í fyrra, en spurt verður að leikslokum að sjálfsögðu.

Veiði fer vaxandi í Eystri og á austurbakka Hólsár. Hér er einn rígvænn af austurbakkanum í vikunni….

Við gætum næst tekið fyrir Norðurá sem gaf 1431 lax í fyrra sem var risaframför frá einstaklega döpru sumri þar 2020. En rétt eins og Þverá/Kjarrá, þá er standardinn hár í Norðurá og 1431 lax hefði í eina tíð ekki þótt sérlega merkileg vertíð. Og nú við júlílok er aðeins 801 lax kominn í bók og áin ekki þekkt fyrir að vera sterk síðsumars  og um haust.

Það er erfitt að ráða í Urriðafoss, hann gaf 823 laxa í fyrra sem var með minna móti síðan að stangaveiði var þar tekin upp. Nú eru komnir 762 laxar og miklir vatnavextir sem kunna að valda erfiðleikum. En besti tíminn í Urriðafossi er að renna sitt skeið.

Langá er í lægð, engin spurning. Á sem fór vart undir 1200-1400 laxa og margoft miklu hærra var með 832 laxa í fyrra og aðeins komin með 525 laxa í júlílok. Lítur ekki vel út þó áin sé oft sterk á haustin.

Sama má segja um Haffjarðará sem hefur jafnan boðið upp á misháar 4 stafa tölur. Gaf 914 í fyrra og komin með rétt um 500 núna. Þessar ár eru í lægð miðað við fyrri gæði. Þó bera menn sig alls staðar vel, enda er nokkuð af laxi í þessum ám. Bara mun minna en á fyrri árum.

Talað er um að „mikið sé af laxi“ í Elliðaánum en hún er núna með aðeins 457 laxa og lokatala í fyrra var 617 laxar. Þetta er enn ein áin sem hefur reglulega boðið upp á myndarlegar 4 stafa tölur.

Næst á lista er Miðfjarðará og erum við þar með komin á þær slóðir þar sem útlitið hefur verið hvað verst í sumar. Þessi annálaða stórveiðiá síðustu ára fór „niður í“ 1796 í fyrra sem var langt frá risatölum fyrri sumra. Hefði nú samt þótt ansi gott í eina tíð. En nú í lok júlí voru aðeins 452 laxar komnir í bók.

Sturla Birgisson staðarhaldari við Laxá á Ásum með tröllið sem erlendur gestur hans veiddi í Langhyl á dögunum.

Vatnsdalsá, Víðidalsá, Blanda og Laxá á Ásum. Vatnsdalsá hefur verið á hröðum spíral niður á við síðustu árin og í fyrra veiddust þar aðeins 427 laxar. Núna eru aðeins 124 komnir í bók. Bót í máli að afar góð silungsveiði er í ánni, en bleikjunni hefur þó líka hrakað. Sama á við um Víðidalsá, 737 í fyrra sem þótti ekki merkileg vertíð, aðeins 262 laxar núna komnir á land. Og í Ásunum sama sagan, á sem fór aldrei niður fyrir 4 stafa tölu gaf 600 í fyrra og er með 375 núna. Alltaf þó fallegir sólstafir inná milli, í ánni veiddist fyrir skemmstu 105 cm hængur í hinum fræga Langhyl.

Og ekki er staðan skárri í Dölunum, Laxá sem þó gaf 1023 í fyrra (oft verið miklu hærri samt) er nú með aðeins 151 lax. Haustrokurnar í Laxá eru samt víðfrægar og gæti þessi dapra tala skotist vel uppá við áður en yfir lýkur. Haukan? Slök í fyrra með aðeins 447 laxa, aðeins 148 komnir núna.

Við gætum haldið lengi áfram á þessum nótum, en bætum einni við.Sorgarsaga Laxár í Aðaldal ætlar ekki að taka enda þetta sumarið. Hríðfallandi með hverju árinu náði hún botninum 2021 og 2020. 401 lax í fyrra, aðeins 192 komnir á land nú. Taka verður með í reikninginn að alger sleppiskylda er í mörgum af þessum ám og há sleppitíðni í hinum. Margir af þessum bókuðu löxum eru því án vafa tvíveiddir. Jafnvel þríveiddir.

En svo koma skrýtnu og skemmtilegu litlu punktarnir. Hvað er þetta t.d. með Flóku. Oftast með rífandi fína meðalveiði á stöng, hrapaði í fyrra niður í 281 lax. En er núna komin yfir þá  tölu, 305! Brennan er líka komin yfir heildartölu síðasta sumars, 112 þá, 143 nú. Straumarnir eru á sömu vegferð, gáfu 125 í fyrra, komnir í 118 nú. Þannig að þetta er ekki allt saman svona á „niðurleið“ tölur. Og þrátt fyrir að þessi samantekt virðist vera frekar á neikvæðu nótunum, þá er samt sem áður víða góður slatti af laxi og líflegir dagar. Engu að síður sýna þessar tölur að laxinn á í tilvistarvanda eins og margoft hefur komið fram í ræðu og riti síðustu árin.

Auðvitað eru miklu fleiri ár á skrá hjá angling.is og þar geta lesendur skoðað fleiri ár í þessu ljósi.