Hafralónsá bætist við 6RP og góður gangur á svæðinu

Hér má sjá Hafralónsár og Kverkármenn glaðbeitta yfir nýjum samningi ásamt Helgu Kristínu Tryggvadóttur, sölustjóra Six Rivers.

Six Rivers Project sem áður var betur þekkt sem Strengur, lét frá sér fréttatilkynningu nýverið þar sem greint var frá nýjum samningi, til tíu ára, um leigutöku á Hafralónsá og hliðará hennar Kverká í Þistilfirði

„Við erum einstaklega ánægð þennan tíu ára samning og það traust sem meirihluti veiðifélagsins sýnir okkur. Að bæta Hafralónsá og Kverká við uppbyggingarverkefnið okkar á Norðausturhorninu er mjög spennandi og hlakkar okkur mikið til komandi samstarfs næstu árin,“ segir m.a. í tilkynningu frá Six Rivers.

Hafralónsá er ein vatnsmesta og glæsilegasta laxveiðiá landsins. Krefjandi og mögnuð. Síðustu árin hefur ekki alltaf ríkt einhugur landeigenda í millum. Skal það ekkert tíundað hér en ákveðin málamiðlun fengist með því að veiðileyfasalinn Hreggnasi hefur séð um sölu leyfa. Mestu máli nú skiptir, að einhugur ríkir á ný. Frá 2023 tekur Six Rivers við sölu veiðileyfa.

Og hvað veiðiskap á Norðausturhorninu viðvíkur á þessu sumri, þá hefur borið á því að hann hafið verið talaður niður. Gísli Ásgeirsson framkvæmdastjóri Six Rivers á Íslandi sagði í samtali við VoV í dag að vissulega hefði verið kalt og mjög mikið vatn, en það væri „helber þvæla“ að veiði hefði verið slök. Þvert á móti. „Ég get auðvitað bara talað um okkar ár, Selá, Hofsá og Miðfjarðará, en þær hafa allar verið að gera það gott. Miðfjarðará er komin yfir sína tölu frá í fyrra. Önnur hinna var nýlega með 100 laxa á sex stangir og hin á sama tíma með 60 laxa á sjö stangir við erfið skilyrði. Það er mun meira að ganga af laxi, t.d. fengum við um helgina þann mesta fjölda laxa í gegnum teljarann í Selárfossi sem komið hefur, 65 á einum sólarhring. Aldrei fyrr séð svoleiðis tölur. Þannig að það eru ekki bara ýkjur að hér veiðist lítið, það er beinlínis kolrangt,“ bætti Gísli við.