Svakalegur dreki úr Ytri Rangá

Hér er ferlíkið úr Línustreng. Myndin er fengin af FB síðu IO Veiðileyfi (Iceland Outfitters)

Enn veiðast birtingar í ánum og sumir sannkölluð tröll. Einn sá al stærsti á þessu vori veiddist nýverið í Ytri Rangá, IO veiðileyfi, umsjónaraðili árinnar greindi frá.

Í texta sem þau birtu með meðfylgjandi mynd mátti lesa í dag: „Þetta er stærsti sjóbirtingurinn sem við vitum af veiddum í vor og kom hann á land á Línustreng í Ytri Rangá. Sjóbirtingurinn mældist 94 cm langur og hefði ekki getað verið feitari. það má vel áætla að þessi fiskur sé um og yfir 10 kg.“

Þótt tröll sé að burðum, þá hefur VoV heyrt af tveimur sem voru enn vígalegri, 99 cm í Skaftá og 95 cm í Geirlandsá. Þá veiddist 99 cm staðbundinn ísaldarurriði í Þingvallavatni fyrir skemmstu. En þessar viðbótarupplýsingar kasta í engu rýrð á þann aldna höfðingja sem var dregiinn úr Línustrengnum. Og var að sjálfsögðu sleppt aftur með hraði. Glæsilegur fiskur og gaman að enn geri menn góða túra á vit birtingsins.