Nýtt laxveiðisvæði lítur dagsins ljós

Um svæðið gengur mikið af laxi..

Nýtt stangaveiðisvæði, laxveiðisvæði, verður reynt með skipulegum hætti á komandi sumri. Það er austurbakki Ölfusár við Selfoss og það er veida.is sem að heldur utan um sölu veiðileyfa. Þarna hefur verið netaveiði. Og gjöfular lagnir, verður að segjast, enda gengur mikið af laxi þarna um og sjóbirtingur einnig.

Loftmynd af Selfossi og umræddu veiðisvæði sem afmarkað er með rauðum strikum. Myndin er fengin hjá veida.is

Kristinn Ingólfsson hjá www.veida.is segir: „Nú höfum við tekið í sölu hér á veiða.is, nýtt stangaveiðisvæði við Selfoss. Um er að ræða veiðisvæði þar sem netaveiði hefur verið stunduð að hluta, í tugi ára. Svæðið sem um ræðir er á austurbakka Ölfusár. Efri mörk þess eru rétt fyrir neðan sjúkrahúsið á Selfossi og þau neðri, rétt fyrir neðan kirkjugarðinn. Um er ræða 2ja stanga svæði sem byrjar ca 600-700 metra fyrir ofan brúna við Selfoss, og nær niður á tangaroddan þar sem kirkjugarður Selfoss er. Veiðimenn eru hvattir til að fara varlega við veiðar – Ölfusá er mikið vatnsfall og straumþung á köflum og gott að nota flotvesti þegar vaðið er. Aðal veiðisvæðið er þó þar sem áin liðast um grynningar og fiskur gengur um netta ála og stoppar á brotum, nálægt austurbakkanum, á leið upp ána. Gríðarlega mikið af fiski gengur upp með austurbakkanum á þessu svæði, að sögn kunnugra, enda er straumþunginn og boðaföllinn mikil vestan meginn.

Sumarið og haustið mun að sjálfsögðu fara í að kortleggja veiðisvæðið og fá dýrmæta veiðireynslu, enda hefur þetta svæði að mjög takmörkuðu leyti verið veitt á stöng. Verið er að taka mikilvæg skref í þá átt að breyta nýtingu þessa svæðis í Ölfusá, úr netasvæði í stangveiðisvæði. Ef vel tekst til, þá mun það að sjálfsögðu koma öllum, bæði veiðimönnum og eigendum landsvæði við Ölfusá og Hvítá, til góða.“