Fáum sögum fer af einni bestu ánni

Rígvænn urriði úr Hólaá í vor. Myndin er fengin hjá www.veida.is

Urriðaveiðin á vorin er ekki bundin við Þingvallavatn og sjóbirtingsár á Suðurlandi, ein öflugasta silungsveiðiá landsins er furðu sjaldan í sviðsljósinu og kannski vegna þess að aðdáendur árinnar eru bara sáttir við það. Við erum að tala um Hólaá, sem rennur úr Laugarvatni í Hagaós, sem kemur úr Apavatni, og saman bætast þær við Brúará. Fín veiði hefur verið í Hólaá í vor.

Veiði hófst í ánni 1.apríl og fór strax vel af stað. Þannig greindi Kristinn Ingólfsson hjá veida.is, sem selur í landi Úteyjar, frá því að líflegt hefði verið í byrjun og hefðu verið að nást á land upp í 20 fiskar á dagstangirnar fjórar. Til þessa er það mest urriði og eru fiskar upp í 60 cm, sem telst vera nærri 5 pundum. Algeng stærð þó 2-3 pund. Fluga og pónn gefa besta raun í urriðann.

Svipaða sögu er að segja frá Laugardalshólum og Austurey 2 þar sem utanumhald er hjá IO veiðileyfum. Vorveiðin í Hólaá er að stærstum hluta urriði. Þegar hlýnar í veðri leitar bleikja úr Laugarvatni í straumvatnið enda er Laugarvatn fremur heitt vatn þrátt fyrir allnokkra stæðilega lindarlæki se í það renna. Bleikjan gengur þá niður í Hólaá sem þá breytist úr gjöfulli urriðaveiðiá í afburðagóða bleikjuveiðiá. Bleikjan gengur einnig talsvert í fyrrgreinda lindarlæki en VoV hefur ekki spurnir af því hverjir eiga veiðiréttinn í þeim.