SVFK missir Fossála – Fish Partner færir út kvíarnar

Fallegur sjóbirtingur

Þær fregnir hafa borist að Fossálar séu ekki lengur í höndum SVFK, veiðileyfasalinn Fish Partner hafi náð þar samningum við landeigendur. Þetta eru tíðindi, SVFK hefur haft ána um árabil, en Fish Partner verið að færa sig upp á skaftið í héraðinu.

Nefnilega, Fish Partner hefur haft Tungufljót á leigum síðustu árin og bættu við sig hinum víðfrægu Vatnamótum fyrir komandi vertíð. Og nú Fossálum, sem er í raun ein á, og er meðal þeirra sem mynda hið víðfeðma veiðisvæði Vatnamóta ásamt Geirlandsá, Hörgsá, auk fleiri smærri lækja.
Gunnar Óskarsson formaður SVFK ritaði í færslu á heimasíðu SVFK á Facebook: „Eftir áratuga viðveru félagsins við Fossála tókst ekki að ná samningi við veiðiréttareigendur um áframhaldandi veru félagsins. Í fyrra veiddust rétt rúmlega 60 fiskar í Fossálum bæði í vor og haustveiði. Hafa veiðiréttareigendur nú þegar gengið til samninga við aðra aðia.“
Einn ósáttur.
Að vonum eru félagar í SVFK, sem margir hafa veitt í áni um árabil , ekki sáttir, enda sjá þeir fram á miklar verðhækkanir, þótt ekkert liggi svo sem fyrir um það. Miða menn við þær hækkanir sem kynntar hafa verið í Vatnamótunum. Ásgeir Ólafsson, félagi í SVFK og einn af hollvinum Fossála, segir t.d. eftirfarandi: „Þetta er svo yndislegur staður. Fish partner eru líka búnir að ná Vatnamótunum. Holl á besta tíma í Vatnamótum síðsta haust kostaði 320.000kr. Fish partner eru að selja dýrustu hollin næsta haust á 670.000kr. Miðað við það þá kæmi það ekki á óvart að verð myndu einnig hækka í Fossálum.“
Þessar tölur hefur VoV heyrt víðar, nákvæmlega þessar sömu og miðlað frá mönnum sem keypt hafa leyfi á svæðið frá Ragnari Johnsen í Hörgslandi sem verið hefur með svæðið um árabil. Þarna er hækkun á dagstöng sem nemur all nokkru, stangardagurinn fer úr 32þúsund krónum í 67þúsund. Einn sem vildi ekki láta nafns getið (ekki Ásgeir), sem verslað hefur síðustu árin við Ragnar sagði að verið væri að troða á venjulegum veiðimönnum, „þetta endar með því að það verða engin svæði eftir fyrir okkur, venjulega launamenn,“ sagði viðmælandinn. Einn, sem skráði skoðun  á FB síðu SVFK sagði að vorveiðin í Fossálum væri komin í vefsölu hjá Fish Partner og væri hollið selt á 150þúsund krónur. Þetta er þriggja stanga svæði þannig að hver stöng borgar 50þúsund, eða 25þúsund fyrir daginn. Þannig að það er ekki bara laxveiði sem er að hækka umtalsvert, en meira um það í næstu frétt, en þar höfum við verið að safna í sarpinn að undanförnu.
      •