„Nafnið ekki beint aðlaðandi“ – sýnishorn úr Norðurárbók Jóns Bald

Norðurá, Norðurárdalur
Það er fallegt í Norðurárdal og það lítur vel út núna. Mynd -gg.

Eins og við höfum greint frá, hefur gamli flugnahöfðinginn Jón G. Baldvinsson gefið út bók um sína eftirlætis laxveiðiá, Norðurá. Norðurá – Enn fegurst áa með skýrskotun í eldgamla bók Björns J Blöndal um sömu á og hét Norðurá fegurst áa. Hér birtum við með leyfi Jóns og hans fólks kafla úr bókinni.

49 Hræsvelgur  

Nafnið er ekki beint aðlaðandi en það finnst mér aftur á móti veiðistaðurinn vera. Erfitt getur reynst ókunnugum að finna Hræsvelg þar sem enginn áberandi strengur eða flúð sést á yfirborði. En í hlíðinni upp frá vesturbakkanum er gróðurbelti á einum stað alveg frá brún og niður að árbakka. Út af þessu gróðurbelti og ofan við það er þessi veiðistaður.

Þetta er klappargjá hálf falin í botninum með smábreiðu neðan við og broti. Þarna fullyrði ég að staldri við allur lax sem gengur í venjulegri vatnshæð. Ef mikið vatn er í ánni þá gengur laxinn að mestu upp með austurlandinu og eiginlega skríður þar upp með bakkanum. Við þau skilyrði þarf ekkert að vaða en veiða mjög nærri landinu á löngum kafla. Í eðlilegri vatnsstöðu er hægt að veiða frá báðum bökkum en svolítið þarf að vaða út frá austurlandinu og getur það reynst sumum dálítið erfitt því þarna eru sleipar klapparrásir í botni sem skreflöngum mönnum eins og mér finnst reyndar best að klofa yfir og stikla þarna út á mosabreiðunum sem þekja flestar klappirnar.

Ef maður fælir ekki laxinn í Hræsvelg með því að fara of nálægt þá er hægt að dveljast þarna löngum stundum og tína upp einn og einn fisk þegar laxinn er í göngu. En þarna er að sjálfsögðu eingöngu veitt á göngutíma laxins. Ekki er síður skemmtilegt að veiða staðinn að vestanverðu þótt aðkoman sé ekki eins aðlaðandi og að austanverðu.

Kápan

Þarna að vestanverðu var kappsamur vinur minn að veiðum fyrir örfáum árum og gekk í fyrstu býsna vel. Hann var búinn að landa tveimur löxum á gárubragðið og reisa marga og var orðinn verulega spenntur, eiginlega nokkuð æstur. Eftir að hafa landað seinni laxinum og gengið frá honum í landi var kappið svo mikið að hann hálfhljóp þessi fimm skref út að gjánni og var í leiðinni að undirbúa fyrsta kastið en fór of langt í öllum látunum og hvarf hreint og beint niður í svelginn. Hann þurfti að svamla niður hylinn og krafsa sig á land og var verulega skömmustulegur því að veiðivonin var úti þennan morguninn. Á þessari litlu sögu sést hve erfitt er í raun að átta sig á aðstæðum við Hræsvelg og ég brýni fyrir mönnum að fara varlega og horfa niður fyrir sig í hverju skrefi.  

Fyrir mörgum árum – sennilega í kringum 1980 – var ég við leiðsögn þarna með bandarískan augnlækni af asískum uppruna. Gott ef hann hét ekki Wong. Þetta var bráðskemmtilegur maður, vanur silungsveiði en hafði ekki kynnst alvöru laxveiði fyrr. Hann hafði eins konar „fæðingargalla“ þegar komið var að Hræsvelg, hann var mjög smávaxinn og því afar léttur.  

Þokkalegt vatn var í ánni og við erum á austurbakkanum. Ég þurfti því að vaða með doktorinn þarna út og koma honum fyrir á réttum stað ofan við tökustaðinn. Fljótlega setur karlinn í lax og kætist nú verulega. En skyndilega er eins og dregið fyrir andlitið á honum þar sem hann stendur í straumnum upp í rass. Hann hreint og beint frýs þarna úti í miðri ánni og þorir ekki að hreyfa sig. Stendur bara þarna skjálfandi eins og freðinn fiskur. Ég reyndi að tala um fyrir honum, við yrðum að herða upp hugann og koma okkur í land og landa laxinum o.s.frv. en engar fortölur dugðu á þann stutta og nú svamlaði laxinn hálfdauður við stangarendann. Nú voru góð ráð dýr og ekki hægt að hanga þarna úti í flaumnum og bíða eftir kraftaverki eða þyrlu svo ég greip til þess óyndisráðs að beita aumingja manninn ofbeldi. Ég tók með hægri hendi utan um mittið á karlinum og skellti honum á mjöðmina og óð með hann spriklandi og æpandi í land og laxinn dinglandi fyrir aftan okkur, því sem betur fór sleppti Wong ekki stönginni. Þetta tókst nú bara vonum framar enda maðurinn léttur – varla meira en 60 kíló.  

Jón Slakar á við Laxfoss í Norðurá.

Sá var nú feginn þegar í land var komið. Hann brosir eyrna á milli á myndinni sem tekin var af hinum stolta veiðimanni með afganginn af laxinum hangandi í hendinni. Auk þess fyrirgaf hann mér ofbeldið og raunar þakkaði hann mér lífgjöfina því hann var alveg sannfærður um að hans síðasta stund væri upprunnin þarna úti í miðri ánni.  

 48 og 44 Eyrarhylur og Hnýfill  

Þessir staðir eru báðir merktir sem veiðistaðir á kortinu af ánni en hafa í raun ekki gefið neina veiði mörg undanfarin ár. Það er í raun á reiki hvar Eyrarhylurinn er í raun og veru en margir smápyttir og strengir koma til greina þarna á flúðunum fyrir neðan Hræsvelg. Ég hef einstaka sinnum rekist á laxa þarna í göngu en hef ekki sjálfur fengið þarna lax. Sama má segja um Hnýfilinn. Bræðurnir Pétur og Ragnar Georgssynir sem nú eru báðir látnir kenndu okkur á ána og lentu einstaka sinnum í veiði við Hnýfilinn hér á árum áður en það gerðist eingöngu ef grjót hafði borist á klapparbotninn sem liggur út frá og niður af Hnýflinum. Hnýfill er auðþekkjanlegur þríhyrndur klettur sem skagar út í ána við austurlandið.  

Nokkurn veginn beint á móti Hnýflinum við vesturlandið, er smáflúð og breiða sem stundum hefur gefið mér lax þegar ég á leið þarna um. Þessi staður er eiginlega nákvæmlega á veiðimörkum Stekks og aðalsvæðisins. Og erum við þá komin efst í Stekkinn, þar hefjast svonefndar Stekkjarveiðar. Fyrsti staðurinn sem við komum að er Hornbreiða. Hún lætur ekki mikið yfir sér en gefur oft góða veiði í vatnavöxtum.  

 43 Hornbreiða  

Nafnið er dregið af kletthorni sem skagar þarna út frá landi og getur verið erfitt að vaða fyrir í vatnavöxtum. Beint út af og svolítið niður af kletthorninu eru stórir steinar í árbotninum og myndast þar var og strengbreiða innanvert við þessa steina. Þar staðnæmist laxinn þegar mikið er í ánni. Þetta er frábær vorveiðistaður en gefur aðeins veiði í vatnavöxtum. Flugan verður að fara alveg að landi þegar veitt er því laxinn getur legið alveg við bakkann. Hann liggur því nær bakkanum sem vatnið er meira og gruggugra. Þessi staður hefur oft bjargað miklu í flóðum þegar fallegu veiðistaðirnir í Stekknum verða erfiðir, jafnvel óveiðandi. Hefur oft borgað sig að rölta þennan spöl frá Stekkshúsinu þangað upp eftir.