All svakalegur Maríulax!

Hér er Ívar Logi með sinn eftirminnilega Maríulax. Myndin er fengin frá Kolskeggi.

Eystri Rangá fór yfir 3000 laxa múrinn í vikunni sem er bara fínt þó langt sé að baki risametinu í fyrra. Það má ekki alltaf miða við met. En á meðan óveðrin gengu yfir varð áin svakaleg og gruggug. Nú er ástandið orðið betra. Það fréttist af all vígalegum Maríulaxi á dögunum.

Jóhann Davíð Snorrason, sölustjóri hjá Kolskeggi, sem rekur Eystri Rangá, sagðist vonast eftir góðum lokaspretti í ánni og að nýliðinn Ívar Logi, hafi hafið sinn laxveiðiferil með miklum glæsibrag, „margur hefur byrjað ver,“ sagði Jóhann, en Ívar Logi landaði sínum Maríulaxi í Eystri í vikunni og var það 94 cm tröllslegur hængur, eins og sjá má á myndinni.