Norðurá – fækka stöngum, stækka svæði

Norðurá, Norðurárdalur
Það er fallegt í Norðurárdal og það lítur vel út núna. Mynd -gg.

Það er nú búið að staðfesta með fréttatilkynningu að Rafn Valur Miðfirðingur sjái um sölu veiðileyfa í Norðurá næstu fimm árin, „verst geymda leyndarmálið í laxaheiðiheiminum“ sögðu Sporðaköst, enda sagði VoV frá þessu 12.9 s.l. Enginn vildi staðfesta það þá, en við treystum okkar heimildum, en það eru fróðlegar fréttir að færa af þessum gjörningi.

Sem sagt, þann 12.9 vildi enginn staðfesta, enda ekki búið að skrifa undir, en VoV treysti heimildamönum sínum og til allrar hamingju gekk það eftir. Fátt glataðra fyrir fréttamann en að draga til baka frétt. En hvað um það. Við lestur á fréttatilkynningu kemur nokkuð merkilegt í ljós.

Það er ekkert merkilegt að halda eigi áfram fyrirkomulagi sem verið hefur við lýði síðan 2013. Það hefur augljóslega gengið að óskum. Heldur þetta: Það á að fækka stöngum. Stækka svæðin. Þetta er það sama og verið hefur í gangi í nokkrum ám í seinni tíð. Við höldum að það hafi byrjað í Laxá í Dölum hjá Hreggnasa. Síðan komu Laxá í Kjós og Selá. Þetta er gert til að draga úr álagi á ánum og frábært að hugsa til þess að bændur og leigutakar séu samtaka í að draga úr álagi á ánum og laxinum með þessum hætti. Að ekki skuli allt snúast um krónur og aura. Laxinn og lífríki ána í forgang.

Síðan skulum við að lokum birta fréttatilkynninguna frá VN þó að flestir séu núna búnir að lesa hana á Sporðaköstum.

Guðrún Sigurjónsdóttir á Glitstöðum, formaður VN og Rafn Valur glaðbeitt með pennana.

„Í gær undirrituðu Guðrún Sigurjónsdóttir fyrir hönd Veiðifélags Norðurár og Rafn Valur Alfreðsson f.h FHD ehf samning um sölu og umsjón Norðurár til næstu 5 ára.  Samningurinn var samþykktur samhljóða á félagsfundi í Munaðarnesi í gærkvöldi

Guðrún:  það var samþykkt á aðalfundi félagsins í vor að leita að söluaðila til selja ána með líku fyrirkomulagi og gert hefur verið síðan 2013. Margir sýndu því áhuga að koma að rekstri árinnar og ræddi stjórnin við marga aðila. Niðurstaðan var að semja við Rafn í Miðfjarðará um að taka að sér sölumálin. Við gerum ráð fyrir lítillega breyttu fyrirkomulagi og fækkum stöngum aðeins og stækkum veiðisvæði.“

Rafn: „Ég er gríðarlega spenntur fyrir þessu verkefni á sama tíma og ég er afar stoltur yfir því trausti sem landeigendur í Norðurá eru að sýna mér.  Ég hef alla tíð lagt mikinn metnað í minn rekstur og það að Norðurá sé nú innan minna vébanda mun efla mig og félag mitt til að gera enn betur.  Hér er mikil saga og Norðurá á sér mjög stóran hóp aðdáenda þannig að ég er að taka við góðu búi.  Við höfum fengið til liðs við okkur Brynjar Hreggviðsson sem er reynslumikill sölumaður og mun aðkoma hands styrkja okkur enn frekar.“