Hvílíkt eintak!

Þorgeir Þorgeirsson með 88 cm birting sem var að auki 45 cm að ummáli. 20 Pund?

Tíð vatnsveður hafa sett strik í reikninginn í mörgum sjóbirtingsám á Suðausturlandinu að undanförnu, en þegar árnar hafa náð að jafna sig er ljóst að talsvert er gengið af vænum birtingi. Eldvatn fær þó aldrei drullugusurnar, við heyrðum í Jóni Hrafni leigutaka og hann sagði okkur m.a. frá mögnuðum fiski sem veiddist um helgina.

Erlingur Hannesson með vel þykka 72 cm hrygnu úr Eldvatni. Bæði þessi fiskur og tröllið að ofan veiddust í Símastreng.
„Veiðin eftir miðjan ágúst hefur verið nokkuð jöfn , fiskurinn hefur verið mjög vænn og loksins erum við að sjá smærri fisk sem lítið hefur sést til síðustu 2-3 árin,“ sagði Jón Hrafn og bætti við að stórir fiskar hefðu veiðst um helgina, meðal annars einn sem var 88 cm.Það þykir gríðarstór birtingur og gamall mjög, en ummálið var 45 cm og má sjá á myndinni að þetta er svakalegt stykki, miðað er við 100 cm hjá laxi að þá séu þeir 20 pund þó að allir viti um frávikin, en 20 punda birtingar eru mun styttri en meterinn og það þar ekki ríkt hugmyndaflug til að áætla þennan 20 pund, ef ekki enn þyngri.
VoV spurði Jón Hrafn út í vatnsbúskapinn, en alkunna er að Grenlækur þornaði upp á löngum kafla í sumar og ljóst að tjónið á lífríkinu var umtalsvert þó það verði seint mælt. Talað var um að heilu árgangar sjóbirtingsseiða hefðu glatast. Þetta er ekkert nýtt í Landbrotinu, en hvað segir Jón Hrafn um stöðuna núna?
„Hvað vatnsstöðuna varðar þá er hún yfir meðallagi , það hafa verið miklar rigningar ofan í Skaftárhlaupin. Það er viðbúið að vatnsstaðan haldist í hærra lagi út veiðitíman því það mun taka hlaupvatnið tíma að síast gegnum hraunið. Sem betur fer höfum við samt sloppið við að fá jökullitinn í vatnið.“