Rafn Valur að taka við Norðurá

Rafn Valur með einn rígvænan úr Miðfjarðará...

Fram kom fyrr á þessu ári að Einar Sigfússon myndi hætta sem sölustjóri veiðileyfa í Norðurá. Hóf þá stjórn Veiðifélags Norðurár leit að arftaka Einars, en fyrirkomulagið sem hefur verið viðhaft í Norðurá þykir hafa lukkast vel. Nú lítur út fyrir að arftakinn sé fundinn.

VoV hefur góðar heimildir fyrir því að sá er tekur við sölustjórastarfinu sé Rafn Valur Alfreðsson. Rafn er reynslubolti í veiðileyfasölu, hefur verið með Miðfjarðará á leigu um árabil. VoV reyndi að ná í Rafn í dag til að staðfesta, en tókst ekki. Heimildir okkar eru hins vegar mjög sterkar.

Það vakti athygli á sínum tíma þegar Einar tók að sér starf sölustjóra. Það var á skjön við hið gamalgróna fyrirkomulag að leigutaki færi með málefni vatnasvæða, þau væru boðin út og sá sem best bauð hreppti hnossið. Á sínum tíma veltu margir því fyrir sér hvort að þetta fyrirkomulag í Norðurárdal myndi marka endalok leigutakafyrirkomulagsins. Ekki löngu seinna fór Veiðifélag Laxár á Ásum sömu leið og Sturla Birgisson tók þar við sem sölustjóri og rekstraraðili. Hann situr þar enn. En ekki varð framhald á þróuninni, alla vega ekki enn sem komið er.

Norðurá hefur verið í lægð síðustu árin eins og margar aðrar ár hér á landi. Hún var þó að sýna smá endurkomu í sumar.