Starir taka við Bíldsfelli í Sogi

Sogið
Sogið, Ásgarður...Bíldsfell á öndverðum bakka....

SVFR hefur með samþykki landeigenda framselt samning um veiðiréttinn í Bíldsfelli til veiðifélagins Stara ehf. Samningur þessa efnis hefur verið undirritaður og Starir hafa tekið við rekstri svæðisins. Veiðiréttur þeirra veiðimanna sem keypt hafa leyfi í Bíldsfelli af SVFR er að sjálfsögðu tryggður, en félagsmenn SVFR munu njóta sérkjara hjá Störum næstu tvö árin.

Þetta kemur fram á vef SVFR og segir enn fremur: „Aðdáendur Bíldfellsins meðal félaga í SVFR munu því áfram njóta bestu kjara á svæðinu. Jón Þór Ólason, formaður SVFR, segir samninginn sögulegan. „SVFR hefur um árabil boðið félagsmönnum aðgang að Soginu, en því tímabili lýkur hér með. Áhugi okkar félagsmanna á svæðinu hefur dregist saman undanfarin ár og þegar Starir lýstu yfir áhuga á svæðinu vorum við reiðubúin til viðræðna. Hugmyndir Stara um Bíldsfellið falla vel að hugsjónum SVFR og við óskum þeim velfarnaðar,“ segir Jón Þór.

Starir ehf. er umfangsmiklar á veiðileyfamarkaði og bjóða lax- og silungsveiði á fjölmörgum svæðum. Þá eru sterk eignatengsl milli Stara og ION fishing, sem annast rekstur ION-svæðisins við Þingvallavatn, og vinna félögin því náið saman. Þau stefna á enn nánara samstarf með auknum umsvifum Stara við Sogið, en auk Bíldfells hafa Starir nú umsjón með Alviðru. Stutt er á milli þessara þriggja svæða og saman bjóða þau upp á mikla fjölbreytni.

Ingólfur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Stara, segir félagið vilja taka þátt í að endurreisa laxastofninn í Soginu sem hafi átt undir högg að sækja en einnig séu persónulegar ástæður fyrir áhuga hans á svæðinu. „Ég er alinn upp á bökkum Bíldsfells, enda leigði faðir minn svæðið um árabil á mínum æskuárum. Ég hef miklar tilfinningar til Bíldfellsins, þekki það vel og veit hve möguleikarnir eru miklir til framtíðar litið. Ég er sannfærður um að Bíldsfellið mun aftur ná fyrri styrk og ég hlakka til að sjá það gerast,“ segir Ingólfur.