Lengi er von á einum segir máltækið, hér segir af einum alstærsta laxi sem kom á land á vestanverðu landinu síðasta sumar og hann kom á lokamínútum vertíðarinnar.
Hængtröllið á myndinni „eitthvað yfir meterinn,“ að sögn Haraldar Eiríkssonar leigutaka Laxár í Kjós og Bugðu, en laxinn veiddist í Bugðu, í Bakkahyl, á lokamínútum lokadagsins. „Hann fór ekki hátt þessi, en hér er á ferðinni einn af stærstu löxunum sem veiddust á Vesturlandi þetta árið. Mjög líklega dvaldi laxinn í Meðalfellsvatni lungan úr sumrinu, en sakkaði sér niður í Bakkahyl, einn af efstu veiðistöðum árinnar til hrygningar,“ bætti Haraldur við. Hann sagði Aron Sigurþórsson á Meðalfelli hafa sett í og landað laxinum, en vissi ekki hvaða flugu tröllið tók.