Fallegur austfirskur sjóbleikjuhængur. Mynd Ásgeir Ólafsson.

Sem kunnugt er þá eru fjölmargar sjóbirtingsveiðiár á Austlrnaid, allt frá Vopnafirði og suður undir Lón. Sjaldan berast þaðan fregnir, en Ásgeir Ólafsson hefur farið þangað nokkurskonar pílagrímsferðir um árabil og oftar en ekki orðið við ósk okkar um smá skýrslu. Hér kemur hún.

„Hér sendi ég stöðutékkið á sjóbleikjuslóðum á Austurlandi eins og ég ætlaði að gera. Þetta var nú bara frekar erfitt þarna. Mjög svipað ástand og í Eyjafirði. Rosalega mikið og kalt vatn í ánum og fiskmagnið eftir því.

Átti fyrir hádegi á laugardegi og allan sunnudaginn í Fjarðará á Borgarfirði Eystri. Það var alveg steindautt þar. Reyndi vel frá kl 08:00-12:00 á laugardeginum og varð ekki var og sá ekki svo mikið sem eina smábleikju. Hafði ekki mikla trú á að þetta yrði eitthvað betra á Sunnudeginum þannig að ég fór á Seyðisfjörð eftir hádegi á laugardeginum og keypti mér leyfi eftir hádegi á sunnudag í Fjarðaránna á Seyðisfirði.

Nokkrar flottar bleikjur á grillið. Mynd Ásgeir Ólafsson

Kíkti aftur á Borgarfjörð morguninn eftir og það var sama sagan, og gafst því upp þar eftir einn og hálfan tíma. Átti skemmtilegan tíma á Seyðisfirði og landaði 12 sjóbleikjum 1,2-1,7kg (sleppti 6 fiskum) frá 16:00-19:15.

Aðal spennan hjá mér var nú samt fyrir Norðfjarðarà sem ég átti á mánudeginum (frídegi verslunarmanna). En það var því miður sáralítið gengið af bleikju í ána og mikið og kalt vatnið gerði veiðarnar erfiðar og bestu staðirnir uppi í á duttu út í þessu mikla vatni. Endaði á að setja í og landa 3 fiskum á þremur mismunandi stöðum. Tveir af þeim voru vænir og ein um 2pund. Heimamaður sem var að veiða á móti mér sagði mér að áin væri 6 gráður en yfirleitt er talað um að áin þurfi að ná 9 gráðum til að sjóbleikjan þarna byrji að ganga að einhverju ráði.“

Við þökkum Ásgeiri fyrir úttektina, það virðist sem sagt að það þurfi að hlýna. Heitt hefur verið austanlands allra síðustu daga. Þetta gæti því allt átt eftir að koma.