Fyrsti Selárlax sumarsins, Julia Ratcliffe ánægð með dagsverkið, laxinn í klóm Gísla Ásgeirssonar. Mynd frá Streng

Veiði hófst í Hofsá og Selá í Vopnafirði í morgun og var almenn ánægja með gang mála. Ár þessar opna seinna en flestar, en það er spurning hvort ekki mætti opna fyrr, því í t.d. Hofsá, urðu menn varir við laxa á nánast öllum svæðum sem reynd voru.

Julia Ratcliffe að þreyta fyrsta Selárlax sumarsins á Fossbreiðu. Mynd frá Streng

Ratcliffe fjölskyldan opnaði Selá eins og síðustu sumur og Julia Ratcliffe veiddi fyrsta laxinn í ánni af alls fimm sem landað var. Sett var í fleiri sem sluppu. Í Hofsá var það sama uppi á teningnum , fimm komu á land og fiskur víða. Þar er aðeins veitt á 4 stangir á 7 svæðum og mál manna að það taki menn 3-4 vaktir til að skanna ána fullkomlega, en útlitið sé harla gott.

Albert Jónsson með fyrsta laxinn úr Hofsá 2020, 93 cm hæng úr Fossi 2. Mynd frá Streng
Ari Þórðarson með fallega hrygnu úr Hofsá í morgun.

„Skilyrði voru eins og best verður á kosið, gott veður og vatn í rúmlega meðallagi í báðum ánum,“ sagði Gísli Ásgeirsson hjá Veiðiklúbbnum Streng í skilaboðum til VoV og bætti við mest hafi verið um vel haldna tveggja ára laxa að ræða, sá stærsti var 93 hængur sem Albert Jónsson veiddi í Fossi 2 í Hofsá.