Ármannabústaðurinn við Hlíðarvatn. Þarna eru þjófóttir hrafnar á kreiki - Mynd Tómas Sigurðsson

Hlíðarvatn í Selvogi er eitt besta og þekktasta silungsveiðivatn landsins. Veiðin fór þar afar vel af stað í vor. Það er öflugur hópur á FB sem ber hag vatnsins fyrir brjósti. Þann hóp er auðvelt að finna með því að gúggla Hlíðarvatn. Félögin sem leigja veiði í vatninu standa jafnan fyrir Hlíðarvatnsdegi og er búið að dagsetja hann þetta sumarið.

Í færslu á FB síðu hópsins segir meðal annars: „Þeim sem hafa áhuga á að kynnast Hlíðarvatni gefst kjörið tækifæri til þess sunnudaginn 14. júní 2020 þegar veiðifélögin við vatnið opna dyr sínar og taka á móti gestum í Selvoginum. Þar má einnig fá leiðbeiningar um veiði og veiðistaði. Gestum verður heimil veiði í vatninu endurgjaldslaust frá kl. 9:00 morgni og fram undir kl.17 þann dag. Veiðimenn eru beðnir að skrá afla hjá einhverju veiðifélaganna og kvitta í gestabók áður en haldið er heim í lok dags. Leyfilegt agn er fluga og spónn. Rétt er að undirstrika að hundar mega ekki vera lausir við vatnið. Veiðifélögin sem standa að Hlíðarvatnsdeginum eru Stangaveiðifélag Hafnarfjarðar, Stangaveiðifélag Selfoss, Ármenn, Stangaveiðifélagið Árblik og Stangveiðifélagið Stakkavík.

Þrjú himbrimahreiður eru við vatnið og eru gestir beðnir að fara varlega nálægt þeim.“