Laxar. Mynd Einar Falur.

Laxinn lætur sjá sig æ víðar og menn standa agndofa og fylgjast með þeim fyrstu tifandi í straumnum. Nú síðast bættust Elliðaárnar við nafni sínu yfir ár sem að lax er genginn, en það með ýmsum hætti að menn búa í haginn fyrir sumarið.

Það þarf að dytta að slóðum, kynna svæði fyrir væntanlegum veiðimönnum eins og SVFR og Lax-á hafa gert. Negla niður skilti við veiðistaði. Og svo þarf að huga að fiskvegum, að þeir séu í standi eftir átök vetrarins. Að slíku hefur t.d. verið hugað við Blöndu og Vesturdalsá nýverið.

Hugað að stiganum í Blöndu. Mynd Höskuldur Birkir Erlingsson.

Höskuldur Birkir Erlingsson, Elín Rósa Bjarnadóttir, Þorsteinn Hafþórsson og Julia Sergeevia Kolomoiets, búsett á Blönduósi, litu t.d. á laxastigann í Ennisflúðum í Blöndu. Höskuldur skrifaði:  „Við Steini, Elín og Yulia fórum í fyrrakvöld og lokuðum laxastiganum og snyrtum hann til fyrir komandi veiðisumar. Það þarf að gera þetta reglulega. Þá lokum við stiganum, það er látið renna úr honum og farið yfir þrepin hvort að ekki sé allt í lagi. Annað slagið þarf að skera burtu steypustyrktarjárn og fleira.  Allt klárt og stiginn tilbúinn að taka á móti ferskum löxum sem eru á leiðinni heim.“ Það má minna á, að nýr leigutaki hefur nú umsjón með Blöndu og hliðará hennar Svartá. Er það Starir Ehf.

Framkvæmdir við teljaragirðingu og fiskveginn í Vesturdalsá. Mynd Friðbjörn Haukur Guðmundsson.

Það hefur verið girðing með teljara, líkt og í Elliðaánum,  í Vesturdalsá í Vopnafirði um langt árabil. Þar hafa seiðastofnar verið rannsakaðir til fjölda ára. Þar hafa verið framkvæmdir sem miða að því að bæta aðstæðuna. Friðbjörn Haukur Guðmundsson á Hauksstöðum, formaður Veiðifélags Vesturdalsár skrifaði:  „Hér er búið að steypa varanlega, vonandi, rennu og botnplötu meðfram veggnum í teljarastíflunni í Vesturdalsá.“ Af orðunum má ráða að þetta hefur verið til einhverra vandræða í gegnum tíðina.