Vín er yfir höfuð ekki fyrir alla, en til allrar hamingju ráða margir við það sem era f hinum góða vegan þess að hóflega neytt með margvíslegum mat þá eykur það mjög gæði fyrir bragðlaukana. Ekki á það hvað síst við þegar villibráð er til umræðu. Vínsérfræðingur okkar, Hafliði Loftsson hjá Ber.is segir okkur nú frá nokkrum vínum sem passa einstaklega vel með helstu villibráðinni sem um er að ræða, önd, gæs, rjúpu, hreindýri og laxfiski.

Hafliði hefur um árabil flutt inn gæðavín og er nánast meira en nörd í þekkingu sinni á öllu tilstandinu við víngerð. Hann lýsir tegundum hér með skemmtilegum hætti. Hafliði:

Bleikur fiskur

Það veiðast mjög vænar bleikjur í Heiðarvatni, þessar eru 45 og 47 cm, en þær gerast líka stærri….og minni. Mynd -gg.
 • Eichinger Gruner Veltliner Strasser Hasel
 • Birgit Eichinger þykir meðal beztu víngerðarmanna og -kvenna Austurríkis. Grüner Veltliner er ein aðalþrúgan þar í landi og kallast gjarna Grænir vettlingar með einfaldri hljóðlíkingu á því ylhýra.Grüner Veltliner Strasser Hasel er eitt vinsælasta vín Birgittu. Vínið er fölstrágult með frísklegri lykt af perum, ferskjum og hvítum pipar. Bragðið er ferskt og sýruríkt með votti af eplum, talsverðu kryddi og munnfylli af steinefnum {hlýtur að vera hollt}.
  Vínið er það kröftugt að það ræður vel við flestan fisk, ekki sízt reyktan og grafinn.

 

 • Eichinger Riesling Gaisberg
 • Riesling úr garðinum Zöbinger Gaisberg {ugglaust Gæsafelli villibráðunga} sem þykir einn fínasti skikinn í Kamptal og flokkast sem Erste Lage [fr. Grand Cru].
  Sumir segja að Riesling sé bezta hvítvínsþrúgan, jafnvel bezta þrúgan – punktur.
  Liturinn er aðlaðandi strágulur. Lyktin er flókin en dæmigerð fyrir Hrísling, sítrus, marzipan, ferskjur, blóm og olía með slatta af steinefnum sem einkenna öll vín Birgittu. Meira að segja Chardonnay, sem er kannski alþjóðlegast vína, ber sterkan svip sveitarinnar, jarðvegsins og kannski víngerðarkonunnar. Bragðið er líka ekta Riesling, ferskt og ágengt með góðri fyllingu. Eins og alltaf er sýran áberandi en sætuvottur, krydd og steinefni gæla vel og lengi við bragðlaukana.
  Þetta kraftmikla vín hentar vel með flestum fiski sem veiddur er á stöng, hráum, steiktum, soðnum og reyktum.Riesling Zöbinger Gaisberg Erste Lage 2017 sigraði á alþjóðlegu þorstaleikunum, International Wine Challenge, Óskarsverðlaunahátíð vínheimsins, í Lundúnum í fyrra. Var valið bezta hvítvín í heimi.
  Nánari lýsingu á afrekinu má finna á Andbókarsíðu Bers, www.facebook.com/Bersvin.

Hreindýr

Hreindýr á hlaupum. Mynd: Jón Eyfjörð.
 • Silver Oak, Napa Valley 2013

 • Vínið er dökkrúbínrautt með aðlaðandi lykt af hindberjum, sólberjum og píputóbaki. Þrátt fyrir mikla fyllingu er vínið silkimjúkt með spennandi kryddtónum, salvíu, brómberjum, ferskri sýru og löngu eftirbragði.
  Mætti hæglega geymast í a.m.k tvo áratugi. Samsetningin er ekta Bordóblanda: 79% Cabernet Sauvignon, 15% Merlot, 3% Cabernet Franc og 3% Petit Verdot. Þroskað í 24 mánuði í amerískri eik frá tunnugerð Silver Oak í Missouri, 85% nýjum og 15% tunnum sem hafa verið notaðar einu sinni áður. 2013 var afburðaár í Kaliforníu ólíkt flestum öðrum vínlöndum.
  Alræmdur húmoristi benti á að Silfureikin hentaði vel fyrir gráhærða. Sennilega væri hún þó enn betri fyrir þá sem borða villibráð með silfurskeið?
 • Vega Sicilia Unico 2005, 2008, 2006

 • Unico er flaggskip Vega Sicilia, virtustu víngerðar Spánar, eingöngu gert í góðu árferði og geymt í a.m.k. 10 ár áður en því er hleypt á markað. Unico er því stærst allra Gran Reserva. En samt ótrúlega unglegt eftir 20 til 30 ára geymslu. Dökkt, ilmríkt, massíft og unglegt vín að sjá. Íberíuskolplykt í bland við flókinn þroskaðan ilm, jarðvegur, urð og grjót, ekki langt undan. Óviðjafnanlegt flókið bragð af sætum sól- og bláberjum í bland við kjöt og hnetur. Mikið þurrefni, þarf næstum að tyggja. Mjög langt eftirbragð. Fágað vín, andstætt rómuðum hrikaleika, sbr. ‘Monster of a wine’ (Serena Sutcliffe).
  Sumir segja að vínið eigi að vera jafningi steikurinnar – í gæðum og verði. Unico er trúlega eitt örfárra vína sem stenzt samanburð í verði við fína heimafangaða hreindýrasteik {eins gott að heimilisgjaldkerinn átti sig ekki á því}.

Önd

Stokkönd
Stokköndin er fjandi góður matur!
 • Craggy Range Te Muna Pinot Noir 2016

 • Martinborough á Nýja Sjálandi þykir afar heppileg uppeldisstöð Pinot Noir. Te Muna Road Road PN er gott dæmi. Flauelsmjúkt með klassískum ilmi þrúgunnar og jarðartónum víngarðsins. Bragðgott, svört kirsuber með fínlegum kryddkeim, ljúft og fágað. Veiðimaðurinn í Efra hlýtur að drekka svona með heilögu öndunum á sunnudögum. Eða kannski dýrari gerðina, Aroha, þegar vel liggur á þeim.

 

 • Thelema Mountain Red 2015

 • Víngarðurinn Thelema í hlíðum Simonsberg í Suður Afríku heitir eftir lúxus-klaustri/höll munksins, læknisins og rithöfundarins François Rabelais, Abbaye de Thélème, á Leirubökkum.
  Lífsregla nunna og munka klaustursins var einföld: „Gerðu það sem þú vilt“ eða kannski “Gerðu það villt?”.
  Vínið er gert úr óvenjulegu safni berja: Grenache 24%, Petit Verdot 23%, Shiraz 21%, Merlot 20%, Cabernet Sauvignon 11%, Cabernet Franc 1%. Fallega rauðblátt, unglegt með aðlaðandi lykt af svörtum berjum, plómum og votti af kryddi. Geymsla í 18 mánuði á eikartunnum og árin 4 hafa mýkt vínið upp, þ.a. tannínin hafa rúnazt og bragðið þroskazt. Vínið, aðgengilegt og ljúffengt, ætti að smellpassa með öndinni.
  Skjaldarmerki Thelema er fuglinn Fönix {sá sem slapp}.

Gæs

Grágæsir

Pesquera Crianza 2015


Dökkkirsuberjarautt, smáblámi. Þykkur ilmur af kirsuberjum, ólífuolíu, vanillu, mandarínu, grilluðu feitu kjöti. Frísklegur næstum sætur ávöxtur í bland við sviðið greni og feitt kjöt. Stórt í bragði, þykkt og matarmikið. Svolítið villt eins og gæsin. Talsverð tannín eftir. Langt mjúkt eftirbragð.

 

 

 • Vina Pedrosa Gran Reserva 2011
 • Gran Reservan frá Páskabræðrum í Pedrósu þykir með þeim beztu. Dökk, þykk og feit með hinum dæmigerða sveitailmi Ribera del Duero, svörtum berjum, súkkulaði og stundum smá rjómakaffi. Frískleg sýran hjálpar berjunum að dansa við kraftmikla gæsina með eikina í bakgrunni. Langt og kröftugt en fágað.

 

 • Thelema Mountain Cabernet Sauvignon 2016
 • Sumir vilja ekkert annað er Bordótýpur með gæs. Cabernet-vínin eru flaggskip Thelema-víngerðarinnar og með þeim eftirsóttustu í Namibíu og nágrenni. Dökkt og tilkomumikið. Lyktin er flókin en stílhrein með sterkum sólberjum, súkkulaði og nýydduðum en lítið nöguðum blýanti. Þótt vínið sé skráfþurrt er ávöxturinn sætur í bragðinu og ending löng og góð.

 

Rjúpa

Rjúpur á flugi – Mynd Ólafur K. Nielsen fengin af vef Náttúrufræðistofnunar

Dehesa la Granja 2008, 2011

Það eru deildar meiningar um hvernig vín henti með rjúpu, ekki síður en hvernig skuli elda hana. Þó virðist einhugur um að vínið megi ekki vera of þungt og ágengt. Fínleiki og þroski eiga við – eins og víðar.
Dökkrauðblátt með byrjandi þroska í lit, sterkum ilmi af dökkum berjum, kókos, grilluðu kjöti, jarðvegi og grænum laufum. Bragðmikið, kjöt, mynta og næstum sætur ávöxtur. Langt, þétt og bragðgott.
Dehesa La Granja er gert úr 100% Tempranillo, höfuðþrúgu Spánar, og geymt í tvö ár í amerískri eik.
Leiðbeiningar Alejandrós Pesquera-föður og áhrifamanns í spænskri víngerð:
Þetta er holdmikið vín með mjög mildum tannínum og miklum krafti sem þó er farinn að reskjast. Þar sem vínið er ekki síað áður en það fer í flöskur er umhelling heppileg.

 • Tablas Creek Esprit de Tablas 2015
 • Tablas Creek er frumkvöðull í ræktun Rónarþrúgna í Kaliforníu og útibú frá einni athyglisverðustu víngerð Rónardalsins, Chateau Beaucastel. Gaurarnir eru stundum kallaðir Rhone Rangers.
  Í rauða Esprit vínið eru notaðar Mourvedre, Grenache, Syrah og Counoise, sem er sjaldgæf en ein 13 tegunda sem leyfðar eru í Chateuneuf du Pape rauðvínum og einmitt notaðar af móðurvíngerðinni sem er ein fárra sem notar allar 13 í blönduna sína. Mourvedre [49%] gefur krydd, jörð og fyllingu, Grenache [25%] aðgengilegan ávöxt, Syrah [21%] steinefni, ilm og mjúk tannín og Counoise [5%] brómberjakrydd og ferska sýru.
  BevX: „The Tablas Creek Esprit de Tablas is as close as you will get to Châteauneuf du Pape in California [96/100]“.
  Ilmur af svörtum berjum, anís, steinefnum og vindlakassa. Rauð og svört ber í bragði, sólber og rifs. Góð kjötmikil fylling, fínt jafnvægi og langt eftirbragð en þó ekki of stórskorið til að trufla rjúpuna. Ljúffengt með flestri villibráð. Ef Esprit klárast, má vel drekka Cotes de Tablas sem hefur svipaða eiginleika en er minna í sniðum.