votnogveidi_Fors_2009-02
eru þau að fáann

Affallið dyntótt en gjöfult

16.9.2011

 

 

Affallið í Landeyjum er ekki að ná sömu hæðum og í fyrra þegar áin var ein af stjörnum sumarsins, en fyrir skemmstu var þetta ekki einu sinni laxveiðiá, þannig að hér eftir lýtur hún sömu lögmálum og aðrar ár....

 2011 affall

Einn af okkar duglegri pistlahöundum er Hjálmar Árnason og það er fátt sem hann lætur sér óviðkomandi í laxveiðinni. Hann fór í Affallið og sendi okkur pistil. Hann er svohljóðandi:

 Kristján Hjálmarsson með 87 cm hæng.Mynd Ingvar Hjálmarsson.

       Um haustveiði, dugnað og stóra fiska.

„Öll þekkjum við hve dyntótt veiðin getur verið, sem betur fer.  Óvissan er stór þáttur í skemmtuninni.  Við þekkjum líka hvernig haustveiðin getur verið,að sumu leyti erfiðari en vorveiðin.  Frost á næturnar, flennisól að degi og hávaðarok að norðan.  Ekki skemmtilegustu aðstæður til að lenda í, ekki síst í vatnsminni ánum.  En veiði snýst líka um dugnað og þolinmæði.  Í þeirri merku á, Affallinu í Landeyjum, hefur hinn merki maður, Einar Lúðvíksson, byggt upp einstaka perlu, en dyntótta.  Affallið var hástökkvarinn í árflórunni í fyrra og virðist ætla að skila þokkalegri veiði í ár miðað við afkomuna almennt á Suður- og Vesturlandi.  Dyntunum fengu menn að kynnast á síðustu dögum.  Hópur vaskra manna var með allar stangirnar 4 í tvo daga.  Flestir reyndir og í hópi þokkalegra eða a.m.k. efnilegra veiðimanna.  Og ekki vantaði dugnaðinn, menn flengdust um nánast allt vatnsfallið í leit að fiskum.  Hver pytturinn af öðrum þræddur en ekkert sást af fiski.  Einn úr hópnum taldi sig hugsanlega hafa séð byltu á einum stað.  Eftir tveggja daga veiði varð árangurinn algjört fiskleysi.  Góð ferð eigi að síður í góðum félagsskap og ekki spillti hið glæsilega veiðihús sem þarna er komið.  Líklega hið glæsilegasta af „þjónustulausu“ húsunum.

Svo gerast undrin.  Næsta holl mætir og aflabrögð breyttust heldur betur.  Fyrra hollið fisklaust en hið næsta með 44  fiska, þar af nokkra myndarlega, tveggja ára hlunka.  Það merkilega er að fæstir þessara fiska voru nýgengnir.  Svona er veiðin.  Hinir fengsælu veiðimenn voru duglegir að leita.  Þó fyrri hópurinn hefði lagt sig vel fram í leit að fiski þá varð honum ekkert ágengt.  Næsti hópur fann fiskinn!  Að mestu í einum hyl og í grenndinni , á ómerktum stað, milli nr. 14 og 15.  Í kjölfarið kom nýr hópur og fékk 15 fiska á tveimur dögum og síðan þrjár virkar stangir í einn dag með fimm fiska – þar af tvo yfir 80 sm, 81 og 87 sm. 

Af þessari stuttu frásögn endurspeglast veiðin:  Óvissa og dyntir.  Mikilvægt að missa ekki trúna og hafa dugnaðinn til að leita og trúa að verk sín.  Þannig uppskar hópur stórveiði í kjölfar veiðileysu.  Affallið kemur skemmtilega á óvart, er fengsælt og krefjandi.  Unaðsstaður sem býður frábæra aðstöðu og þægilegar veiðimöguleika.  Margir vilja vera í áskrift.

Á meðfylgjandi mynd má sjá efnilegan og tiltölulega reynslulítinn veiðimann hampa 87 sm hæng sem hann fékk í Affallinu.  Var það þriðji fiskur Kristjáns Hjálmarssonar í ferðinni, hinir voru 81 sm og „bara“ 49 sm.  Líklegt að Kristján sé kominn með bakteríuna en maríulaxinn fékk hann á síðasta sumri í Flekku.
Skoða gamlar færslur


Útlit síðu: